„Almannahagsmunir klárlega yfirsterkari“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. mbl.is/Ófeigur

Þingmenn Pírata og Vinstri grænna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa óskað eftir fundi í nefndinni vegna lögbanns sýslumannsins í Reykjavík á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media unna úr gögnum innan úr Glitni.

Þá hafa Píratar sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem ritskoðun fjölmiðla er sögð óásættanleg með öllu og að þöggunartilburðir sem þessir séu algjörlega óásættanlegir.

„Enn og aftur hefur sýslumaðurinn í Reykjavík sett á lögbann á starfsemi fjölmiðla í þeim tilgangi að koma í veg fyrir fréttaflutning sem er óheppilegur fyrir fjársterka aðila og fjármálafyrirtæki. Enn og aftur gerir hann það þrátt fyrir ítrekuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu og skýr fyrirmæli frá Evrópuráði, og frá Alþingi, um að ekki sé ásættanlegt að skerða tjáningarfrelsi með tálmunum á útgáfu nema í mjög afmörkuðum undantekningartilfellum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

„Hér er um að ræða fréttaflutning þriggja fjölmiðla um fjármálagjörninga sem áttu sér stað í aðdraganda stærsta fjármálahruns heimssögunnar, og vörðuðu meðal annars núverandi forsætisráðherra. Þótt persónuverndarrök eigi að vissu leyti við, og bankaleynd sömuleiðis, þá eru almannahagsmunir í þessu máli klárlega yfirsterkari.“

Bent er á að að öllu leyti sé um að ræða samskonar mál og kom upp í ágúst 2009, þegar lögbann var sett á birtingu lánabókar Kaupþings sem sýndi stór óvarin lán til vina og vandamanna stjórnar bankans fyrir hrun.

„Að endurtaka þennan leik núna er ekki til að bæta orðstír eða stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Ísland hefur sokkið frá 1. sæti á heimslistanum niður í það 10. á World Press Freedom Index á undanförnum árum út af nákvæmlega svona þöggunartilburðum. Þessu þarf að linna.“

mbl.is