Mary og Sunday komin með dvalarleyfi

Nígerísku hjónin Sunday Iserien og Joy Lucky og dóttir þeirra …
Nígerísku hjónin Sunday Iserien og Joy Lucky og dóttir þeirra Mary eru komin með dvalarleyfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nígerísku hjónin Sunday Iserien og Joy Lucky og dóttir þeirra Mary eru komin með dvalarleyfi hér á landi. Þetta staðfestir Guðmundur Karl Karlsson vinur fjölskyldunnar.

„Sunday var að hringja í mig alveg í skýjunum til að segja mér fréttirnar,“ segir hann. „ Hann fór í morgun og fékk þessa niðurstöðu.“

Guðmundur Karl deilir fréttunum á Facebook síðu sinni. „Ég var að fá þær frábæru fréttir að Mary ásamt foreldrum sínum Sunday og Joy hafa fengið dvalarleyfi og verða því ekki flutt úr landi eins og til stóð,“ segir Guðmundur Karl í færslu sinni. „Það er ekki hægt að setja í orð hversu magnað kraftaverk landslið mannréttindabaráttufólks hefur unnið fyrir ekki bara þessa stúlku heldur fjölda barna í skelfilegri stöðu. Nú bíðum við eftir fleiri góðum fréttum sem þessum og vonum að þetta setji tóninn. Áfram Ísland.“

Mikið hefur verið fjallað um mál þeirra Mary og afgönsku feðginanna Hanyie og Abrahim  Maleki. Óskað hafði verið eftir endurupptöku mála beggja fjölskyldna hjá Útlendingastofnun og var greint frá því fyrr í mánuðinum að mál Hanye og föður hennar verði tekin til efnismeðferðar.

Guðmundur Karl segir mál Mary og fjölskyldu hennar falla í annan flokk þar sem þau hafi dvalið hér í lengur en 15 mánuði og áður verið synjað.  „Nú eru þau búin að fá nú dvalarleyfi af mannúðarástæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert