Kanna aðstæður við Öræfajökul

Virkni við Öræfajökul hefur verið að aukast síðasta árið.
Virkni við Öræfajökul hefur verið að aukast síðasta árið. mbl.is/RAX

Fulltrúar á vegum almannavarna lögðu af stað í eftirlitsflug yfir Öræfajökul um níuleytið í morgun vegna vísbendinga um aukna virkni í jöklinum. Rík­is­lög­reglu­stjóri, í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á Suður­landi, lýstu yfir óvissu­stigi al­manna­varna á svæðinu í gær.

Frétt mbl.is: Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi

„Það er enginn gosórói en eldstöðin sýnir merki um virkni sem er umfram eðlilegt ástand,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Að hennar sögn verður dagsbirtan nýtt til hins ýtrasta í leiðangrinum.  „Áætlað er að lenda flugvélinni, taka sýni umhverfis jökulinn, í ám og af gasi.“

Sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand

Öræfajökull er nú merktur með gulu á viðvörunarkorti sem gefið er út af Veðurstofunni og sýnir núverandi ástand eldstöðvakerfa á landinu. Gulur litur merkir að eldstöðin sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand. 

Fluglitakóði við Öræfajökul hefur verið færður í gulan af öryggisástæðum.
Fluglitakóði við Öræfajökul hefur verið færður í gulan af öryggisástæðum. Kort/Veðurstofa Íslands

„Í gær var fluglitakóðinn færður í gulan af öryggisástæðum þar sem við vitum í raun ekki það mikið um Öræfajökul eða hvernig hann hagar sér þar sem hann gaus síðast árið 1727 og þar á undan árið 1362,“ segir Bryndís.

Virkni við Öræfajökul hefur verið að aukast síðasta árið en síðustu tæpar tvær vikur hefur skjálftavirknin dottið niður. Tilkynning um brennisteinslykt hefur gerir það hins vegar að verkum að talin er ástæða til að fylgjast vel með jöklinum. „Fyrir tveimur dögum fengum við ábendingu um brennisteinslykt við Kvíá sem rennur undan Kvíárjökli,“ segir Bryndís.  

Nýjar gervitunglamyndir gefa til kynna að nýr sig­ketill, um einn kíló­metri í þver­mál, hef­ur mynd­ast í öskj­unni í Öræfa­jökli síðastliðna viku.

Frétt mbl.is: Nýr ketill myndast í Öræfajökli

Vonast er til að eftirlitsflugið í dag geti varpað ljósi á þá auknu virkni sem hafa mælst í jöklinum upp á síðkastið.

mbl.is