Óttarr Proppé í Bangladess

Óttarr Proppé, starfandi heilbrigðisráðherra, er kominn til Bangladess.
Óttarr Proppé, starfandi heilbrigðisráðherra, er kominn til Bangladess. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óttarr Proppé, starfandi heilbrigðisráðherra, er kominn til Bangladess með UNICEF til að kynna sér aðstæður rohingja þar í landi en þeir hafa í tugþúsundavís flúið þangað undan ofsóknum hersins í Búrma. 

„Við hefjum leik í höfuðborginni Dakka og hittum ráðherra Bangladesh á eftir,“ skrifar Óttarr í  færslu á Facebook um heimsókn sína. „Munum m.a.s. ræða nýtt samkomulag Bangladesh og Myanmar um að heimila flóttafólki að komast heim. SÞ, Rauði krossinn og fleiri setja spurningamerki við samkomulagið og óttast að öryggi og mannréttindi sé ekki tryggt.“

Óttarr segir að það þurfi aðkomu alþjóðasamfélagins að því að finna lausn sem tryggir fólki öryggi, mannréttindi og mannsæmandi framtíð. „Við heimsækjum stofnanir Sameinuðu þjóðarinnar, Rauða krossinn og vonandi fleiri sem vinna mikið starf við mjög erfiðara aðstæður. Þau bjarga mannslífum og gera kraftaverk á hverjum degi en það þarf mikið meira til.“

Um 620 þúsund rohingjar hafa flúið Búrma frá því að herinn herti á ofsóknum sínum í ágúst. Í samkomulagi milli Búrma og Bangladess, sem undirritað var í síðustu viku, er stefnt að því að flytja fólkið aftur til Búrma. Mannréttindasamtök og stofnanir óttast mjög að ástandið í Búrma sé enn ótryggt fyrir fólkið en hermenn hafa m.a. nauðgað, myrt og brennt hús fólksins þar í landi.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert