Kallar eftir afsögn Sigríðar

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, kallaði eftir afsögn Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra á Alþingi í dag. Helgi segir Landsrétt hafa verið skipaðan með hætti sem er algjörlega óverjandi eins og nú sé komið.

„Hæstiréttur hefur úrskurðað að dómsmálaráðherra hafi brotið lög með vinnubrögðum sínum. Það liggur fyrir,“ segir Helgi. Hann segir það þegar hafa legið fyrir 1. júní, þremur dögum eftir að Sigríður afhenti forseta Alþingis tillögu sína um skipanina, og á það hafi stjórnarandstaðan bent.

Vísar hann, máli sínu til stuðnings, til hæstaréttardóms 412/2010 en þar var íslenska ríkið dæmt til að greiða Guðmundi Kristjánssyni hæstaréttarlögmanni 3,5 milljónir króna. Guðmundur hafði sótt um embætti héraðsdómara við héraðsdóm Norðurlands eystra árið 2007 en Árni Mathiesen dómsmálaráðherra ákvað að skipa Þorstein Davíðsson, son Davíðs Oddssonar, í embættið þrátt fyrir að matsnefnd hefði talið Guðmund hæfari.

 „Það er ekkert nýtt í dómi Hæstaréttar. Þetta lá allt fyrir 1. júní. Hæstvirtur dómsmálaráðherra tók meðvitaða ákvörðun um að fara á svig við lögin að mínu mati. Það á ekki að þurfa að kalla eftir því að ráðherrar axli ábyrgð. Þeir eiga að sjá sóma sinn í að bregðast við slíkum bersýnilegum og fyrirsjáanlegum mistökum sem varað var við,“ sagði Helgi í ræðustól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert