Sagði lögbannið skjaldborg um Bjarna

Jón Trausti Reynisson, Heiða B. Heiðars og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir …
Jón Trausti Reynisson, Heiða B. Heiðars og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir í dómsal í dag. mbl.is/Arnar Þór

Verjendur Stundarinnar og Reykjavík Media héldu uppi vörnum gegn lögbannskröfu Glitnis HoldCo ehf. við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður sagði að lögbannið væri liður í því að trufla umræðu um atburði sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins.

Hún sagði að fjölmiðlaumfjöllun um valdablokkirnar í íslensku samfélagi og aðgang þeirra að lánsfé væri mikilvæg og að fjölmiðlar hefðu rétt og skyldu til þess að miðla upplýsingum um slíkt.

Hún lagði einnig áherslu á að bannað væri að láta þagnarskyldu eða bankaleynd koma í veg fyrir birtingu upplýsinga sem eigi erindi við almenning. Lögbannið væri augljóslega skjaldborg Glitnis um Bjarna Benediktsson.

Skjalaheiti lögð fram í varakröfu stefnanda

Í skýrslutökum og vitnaleiðslum fyrr í dag voru ýmis skjöl lögð fram fyrir ritstjóra og blaðamenn Stundarinnar og Reykjavík Media. Þar á meðal var listi með heitum skjala sem Glitnir telur að fjölmiðlarnir hafi undir höndum og voru vitnin beðin um að svara því hvort það væri rétt. Öll báru þau fyrir sig 25. grein fjölmiðlalaga og svöruðu ekki spurningunni.

Í varakröfu stefnanda er einnig að finna 130 blaðsíðna skjal, með heitum 1.013 innanhússkjala úr Glitni banka og verður sá listi því aðgengilegur þegar dómur fellur í þessu máli, en þetta eru heiti skjala sem nú eru til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.

Þetta sagði Sigríður Rut að væri sjálfstæð uppljóstrun bankans á gögnum um eigin viðskiptavini, þar sem bankareikningsnúmerum sé spyrt saman við kennitölur þeirra sem bankareikningana eigi, auk þess sem þar megi greina upplýsingar um veðköll og handveðsetningar, af skráarheitunum einum saman.

Ekkert lögbann á umfjöllun um þinghaldið

Sigríður las upp nokkur skráarheiti af þeim lista sem fylgdi varakröfu Glitnis og sagði að þar væri til dæmis eitt sem heitir Engeyingar.pdf og annað sem heitir Bjarni Ben í braski.doc. Ekki liggur fyrir hvert innihald þessara skjala er, en Sigríður Rut sagði óskiljanlegt að stefnandi legði þetta dómskjal fram í opnu þinghaldi.

„Það er ekkert lögbann á umfjöllun um þetta þinghald. Ég sé ekki betur en að hér séu fulltrúar fjölmiðla í salnum,“ sagði Sigríður Rut sem vill meina að stefnandi eigi enga lögvarða hagsmuni í þessari málsókn og hafi eytt 130 blaðsíðum í að sýna fram á það sjálfur.

Sjálfsagt að fjalla um viðskipti kjörinna fulltrúa

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður fjallaði um mikilvægi tjáningarfrelsisins og sagði það að upplýsingar falli undir bankaleynd ekki nægilega ástæðu fyrir því að ekki mætti greina frá þeim. Hún sagði að í umfjöllun Stundarinnar upp úr skjölunum hefði hvergi verið gengið nær friðhelgi einkalífs en þörf krafði.

Hún sagði að í umfjöllun fjölmiðla um einstaklinga í opinberu embætti giltu aðrar reglur en um umfjöllun um almenna borgara. Kjörnir fulltrúar almennings hefði komið sér í þá stöðu sjálfir og sjálfsagt væri að fjalla um viðskipti kjörinna fulltrúa, sérstaklega ef málið snerti siðferðislega hæfni til að gegna opinberu embætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert