Hnúturinn frekar að harðna

Tyrkir og sýrlenskir bandamenn þeirra gera árás á Kúrda í …
Tyrkir og sýrlenskir bandamenn þeirra gera árás á Kúrda í norðurhluta Sýrlands fyrr í þessum mánuði. AFP

„Hnúturinn í Sýrlandi er ekki að leysast heldur frekar að harðna og nú er ekki aðeins einn hnútur heldur margir,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sagnfræði við Williams College í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is spurður um stöðu mála í Sýrlandi eftir að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa að mestu verið brotin á bak aftur.

Magnús var staddur í Istanbul í Tyrklandi um síðustu helgi og fylgdist þar grannt með umræðunni um stríðið í Sýrlandi. „Þar er mál manna að spennan er að magnast enn frekar og að nú sést merki um að þetta er ekki lengur borgarastyrjöld.“ Spennistigið hafi færst á nýtt og alvarlegra stig þegar ísraelsk herþota var skotin niður í vikunni.

„Þetta var ekki einstakur atburður en merki um það að enn er margt óútkljáð. Ísraelar hafa miklar áhyggjur af því að atburðirnir í Sýrlandi sýna að þeir hafa ekki eins mikla hernaðaryfirburði eins og þeir töldu. Það var álitið í Ísrael að flugherinn þeirra væri nánast óskeikull. En svo virðist ekki vera,“ segir Magnús ennfremur.

Herþotan, sem var af gerðinni F-16, var skotin niður af sýrlenska stjórnarhernum eftir að Ísraelar gerðu loftárás í Sýrlandi. Loftárásin var gerð í kjölfar þess að dróni af írönskum uppruna var að sögn ísraelskra stjórnvalda sendur yfir til Ísraels frá Sýrlandi og skotinn niður af ísraelskri herþyrlu. Var árásin sögð svar við flugi drónans.

Tyrkir réðust á Kúrda í Sýrlandi í kjölfar eftir að hættan af Ríki íslams var að mestu úr sögunni en Kúrdar veittu hryðjuverkasamtökunum mikla mótspyrnu bæði í Sýrlandi og Írak á meðan Tyrkir héldu að sér höndum. Óttast Tyrkir að krafa Kúrda um eigi ríki verði háværari í kjölfarið en Kúrdar búa bæði í Írak, Sýrlandi og Tyrklandi.

Magnús segir ljóst að Íranir séu ekki á leið út úr Sýrlandi og Tyrkir séu að auka herlið sitt á svæðinu. „Íhlutanir þeirra eru umfangsmeiri og nú hangir meira á spýtunni pólítískt séð fyrir Tyrki en oft áður. Á sama tíma eru Rússar að ná yfirhöndinni á mörgum sviðum þrátt fyrir það að þeir hafa verið að missa menn í þessum átökum.“

Magnús Þorkell Bernharðsson.
Magnús Þorkell Bernharðsson. Ljósmynd/Williams College
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert