Tólf felldir út af kjörskránni

Úr Árneshreppi.
Úr Árneshreppi. mbl.is/Golli

Hreppsnefnd Árneshrepps felldi á fundi sínum í kvöld tólf einstaklinga út af kjörskrá hreppsins vegna sveitarstjórnarkosninganna um næstu helgi. Áður hafði Þjóðskrá fellt úr gildi breytingar á lögheimilisskráningum fólksins sem hafði flutt lögheimili sín í hreppinn í vor. Þrír hreppsnefndarmenn samþykktu tillöguna en tveir voru henni mótfallnir. 

Þetta staðfestir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, í samtali við mbl.is. Samtals fluttu 18 einstaklingar lögheimili sitt í hreppinn en Þjóðskrá á eftir að fara yfir mál fjögurra þeirra. Ein lögheimilsbreyting var samþykkt og ein var dregin til baka.

„Þær voru bara felldar niður eins og úrskurðað hafði verið af Þjóðskrá,“ segir Eva. Hún segir að fundað verði aftur síðar þegar niðurstaða Þjóðskrár liggur fyrir varðandi mál þeirra fjögurra einstaklinga sem enn eru til umfjöllunar hjá stofnuninni.

„Þetta hafði samt svolítið truflandi áhrif“

„Það voru nú áheyrendur þarna sem voru aðeins að hafa sig í frammi en þetta fór nú samt allt saman sæmilega,“ segir Eva enn fremur. „Þetta hafði samt svolítið truflandi áhrif.“ Spurð frekar um það segir hún að fólkið hafi verið ósátt við úrskurð Þjóðskrár.

„Það var verið að krefjast þess að við tækjum ákveðin mál fyrir en það var bara ekki uppi á borðinu. Við gerum það bara á næsta fundi. Við þurfum hvort sem er að koma aftur saman og klára þetta,“ segir Eva.

„Þetta er samt á gráu svæði eins og víða“

Spurð um stöðu þeirra sem eiga lögheimili í Árneshreppi en eru þar aðeins hluta úr ári segir Eva að ekki hafi verið hróflað við stöðu þeirra enda mikill munur þar á enda hefðu þeir einstaklingar átt lögheimili þar árum saman og greitt til sveitarfélagsins skatta og skyldur.

„Þetta er samt á gráu svæði eins og víða annars staðar í sveitum, því miður. Við vildum auðvitað hafa þetta fólk hjá okkur eins mikið og mögulegt er en það hefur líka verið að lengjast viðvera þeirra sem helst falla undir þetta.“

Bókað hafi verið um það mál á fundinum í kvöld. Sú bókun verði líklega gerð opinber fjótlega. „Mér þykir það líklegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert