Segir fólk geta gleymt því að kvarta undan einelti

Adolf Ingi Erlingsson.
Adolf Ingi Erlingsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Að sjálfsögðu eru þetta gríðarleg vonbrigði og í rauninni er dómurinn óskiljanlegur að mínu mati,“ segir Adolf Ingi Erlingsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður RÚV, í samtali við mbl.is. Hæstiréttur sýknaði í dag RÚV í máli sem Adolf höfðaði vegna uppsagnar og eineltis.

Hæstiréttur snýr þar með við dómi Héraðsdóms Reykja­vík­ur sem dæmdi RÚV í fyrra til að greiða hon­um 2,2 millj­ón­ir króna í bæt­ur. RÚV áfrýjaði mál­inu til Hæsta­rétt­ar sem hef­ur nú kom­ist að þeirri niður­stöðu að for­send­ur upp­sagn­ar­inn­ar hafi verið mál­efna­leg­ar. 

„Það er algjörlega ofvaxið mínum skilningi hvernig Hæstiréttur getur snúið við vönduðum dómi héraðsdómara. Hann fann það mikla ágalla á meðferð Ríkisútvarpsins á því þegar ég kvartaði undan einelti að hann dæmdi það eitt og sér sem einelti,“ segir Adolf.

Hann segir að með þessum dómi fari Hæstiréttur í mótsögn við sjálfan sig og tekur dæmi um dóm þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða Ásdísi Auðuns­dótt­ur miska­bæt­ur vegna einelt­is sem hún varð fyr­ir af hálfu yf­ir­manns síns á Veður­stofu Íslands.

„Veðurstofan var dæmd fyrir athafnaleysi þegar kvartað var undan einelti. Samt gerði Veðurstofan margfalt meira en Ríkisútvarpið,“ segir Adolf.

Hann segir fordæmdi dómsins þannig að fólk geti gleymt því að kvarta undan einelti á vinnustað. „Samkvæmt dómnum þarf vinnuveitandi ekki að fara eftir neinum reglum eða lögum sem eru til varðandi einelti á vinnustað. Vinnuveitandi getur afgreitt mál eins og honum sýnist,“ segir Adolf og bætir því við að í raun og veru sjái hann ekki til hvers lög eru um einelti á vinnustöðum ef þetta er niðurstaðan:

„Þau eru gagnslaus ef fyrirtæki getur komist upp með þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert