Árneshreppur svarar Skipulagsstofnun

Árneshreppur hefur svarað erindi Skipulagsstofnunar frá því í apríl síðastliðnum.
Árneshreppur hefur svarað erindi Skipulagsstofnunar frá því í apríl síðastliðnum. mbl.is/Golli

Hreppsnefnd Árneshrepps hefur brugðist við erindi Skipulagsstofnunar frá 18. apríl sl., þar sem sveitarstjórnin var meðal annars beðin um að svara spurningum um hæfi hreppsnefndarfulltrúa, tilboð framkvæmdaaðila Hvalárvirkjunar um samfélagsverkefni og innviðauppbyggingu í sveitarfélaginu og það hvort aðalskipulagstillaga hefði verið unnin af þeim sama aðila, Vesturverki á Ísafirði.

Í bréfi Árneshrepps er það sagt tilefni til gagnrýni að Skipulagsstofnun taki upp „ávirðingar“ frá Landvernd og Rjúkanda um tilboð framkvæmdaaðilans um samfélagsverkefni í sveitarfélaginu. Þá leggur hreppurinn áherslu á að Skipulagsstofnun staðfesti aðalskipulagsbreytingar sveitarfélagsins.

Einnig er sagt ljóst að ákvarðanataka og ábyrgð á breytingum aðalskipulags sé hjá hreppsnefndinni en ekki hjá framkvæmdaaðilanum Vesturverki, auk þess sem þeim athugasemdum sem settar hafa verið fram um hæfi hreppsnefndarfulltrúa er vísað á bug.

Er lýtur að tilboðum framkvæmdaaðila um samfélagsverkefni og innviðauppbyggingu segir í svari Árneshrepps að erfitt sé að átta sig á því hvort hreppurinn eigi að svara þeim „áburði öllum“ sem finna megi í erindum Landverndar, minnisblaði tveggja hreppsnefndarmanna og Rjúkanda.

„Heilt yfir er hann varla svaraverður og tilefni er til þess að gagnrýna að stofnunin taki slíkar ávirðingar upp og grundvalli bréf sitt á þeim. Stofnunin á að starfa sjálfstætt og afmarka í eigin erindum hvaða upplýsingum hún kallar eftir,“ segir í bréfi Árneshrepps, sem Jón Jónsson, lögmaður lögmannstofunnar Sóknar á Egilsstöðum, undirritar.

Hreppurinn leggur sem áður segir áherslu á að Skipulagsstofnun staðfesti breytingu á aðalskipulagi hreppsins, sem samþykkt var á fundi hreppsnefndar þann 30. janúar sl. og segir að athugun stofnunarinnar á mögulegum form- og efnisannmörkum skipulags eigi ekki að jafngilda einhvers konar úrskurðarferli, þar sem fjalla eigi um hvers kyns „mótmæli og vangaveltur“ þeirra sem mótfallnir séu skipulagsbreytingu. 

Þá segir í bréfinu að höfnun staðfestingar skipulags feli í sér inngrip í sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga með vísun til 78. gr. stjórnarskrár. Því úrræði ætti ekki að beita nema „augljósir og verulegir annmarkar séu á skipulagi“.

Aðkoma að breytingum á aðalskipulagi

Skipulagsstofnun óskaði í erindi sínu í apríl skýringa á aðkomu Vesturverks að breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins, en tveir fulltrúar í síðustu sveitarstjórn Árneshrepps höfðu gert athugasemdir við málsmeðferð og afgreiðslu skipulagsbreytingarinnar. Skipulagsstofnun minnti í erindi sínu á að ekki sé í skipulagslögum gert ráð fyrir að aðrir en sveitarfélagið standi að gerð tillagna á aðalskipulagi.

Í svari Árneshrepps segir að orðalag bókunar hreppsnefndar á fundi þann 24. nóvember 2016 vísi með sama hætti til aðkomu framkvæmdaaðila að breytingum á deiliskipulagi og aðalskipulagi. Gagnrýna megi skýrleika bókunarinnar, en í bókun sveitarstjórnar frá þeim fundi segir:

„Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkir að veita VesturVerki ehf. heimild til að vinna breytingu á gildandi aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag í samræmi við framlagða skipulags- og matslýsingu …“

Í svari Árneshrepps segir að hvað sem líði því orðalagi bókunar að Vesturverk fái heimild til að vinna breytingu á gildandi aðalskipulagi, sé ljóst að ákvarðanatakan og ábyrgð á breytingunni sé hreppsnefndar.

„Orðalag bókunar hefur fyrst og fremst þýðingu varðandi kostnað af vinnu utanaðkomandi verkfræðistofu vegna vinnu við aðalskipulagsbreytinguna, en felur ekki í sér eftirgjöf á valdheimildum hreppsnefndar Árneshrepps,“ segir í svari sveitarfélagsins og tekið fram að framkvæmdin í Árneshreppi virðist samrýmast venjum sem tíðkast við þessar aðstæður, þ.e. að framkvæmdaaðili greiði verkfræðistofu skipulagshöfunda fyrir þá vinnu án milligöngu sveitarfélagsins.

Hæfi fulltrúa í sveitarstjórn

Skipulagsstofnun óskaði einnig eftir því að sveitarstjórn Árneshrepps myndi bregðast við athugasemdum Rjúkanda þess efnis að oddviti Árneshrepps, Eva Sigurbjörnsdóttir, hefði að mati samtakanna verið vanhæf við afgreiðslu breytingar á aðalskipulagi vegna fyrri aðkomu að málinu.

Í svari Árneshrepps segir að umfjöllun um meint vanhæfi Evu og annarra hreppsnefndarfulltrúa í erindi Rjúkanda einkennist af „vanígrunduðum og órökstuddum fullyrðingum“ og sagt sjálfsagt og eðlilegt að sveitarstjórnarmenn hafi ákveðna afstöðu til skipulagsmála.

Umfjöllun um meint vanhæfi Evu Sigurbjörnsdóttur og annarra hreppsnefndarfulltrúa er …
Umfjöllun um meint vanhæfi Evu Sigurbjörnsdóttur og annarra hreppsnefndarfulltrúa er sögð einkennast af „vanígrunduðum og órökstuddum fullyrðingum“. mbl.is/Golli

„Það er með öllu óskiljanlegt og órökstutt hvernig afstaða sveitarstjórnarmanns að telja skipulagsbreytingu æskilega ætti að leiða til vanhæfis fyrir lögum,“ segir í bréfinu og því bætt við að slík lagatúlkun myndi valda verulegum vandræðum í sveitarstjórnum víða um land, meðal annars í Reykjavík þar sem flestir nýkjörnir borgarfulltrúar lýstu sig annaðhvort fylgjandi eða mótfallna hugmyndum um borgarlínu í aðdraganda kosninga.

„Fráleitt er þó að þessir sömu borgarfulltrúar yrðu taldir vanhæfir til þess að fjalla um aðalskipulag borgarinnar af þessari ástæðu. Sama sjónarmið á við um Árneshrepp og þó e.t.v. enn frekar af þeirri ástæðu að hendur sveitarstjórnar eru bundnar af lögum um rammaáætlun. Sveitarstjórn er hreinlega skylt að gera ráð fyrir virkjuninni í aðalskipulagi sveitarfélagsins,“ segir í bréfinu.

Sexhjólaleiga ekki afstöðumótandi

Sérstaklega var spurt um málefni hreppsnefndarmannsins Guðlaugs Agnars Ágústssonar, sem árin 2015 og 2016 leigði út sexhjól til Vesturverks í samtals 11 daga, fyrir 35.000 kr. á dag.

„Guðlaugur Agnar er ekki í neinu föstu samningssambandi við Vesturverk ehf. eða tengda aðila og hefur hann því ekki fjárhagslegra hagsmuna að gæta vegna virkjunarinnar,“ segir í bréfinu og sagt að það virðist langsótt að byggja á því að umrædd leiga á sexhjóli leiði til þess að breyting á aðalskipulagi, sem felur í sér nánari ákvæði um Hvalárvirkjun sem þegar er gert ráð fyrir í aðalskipulagi, varði Guðlaug Agnar svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

mbl.is