Ljósmæður vongóðar eftir fund með Katrínu

Ljósmæður mótmæltu fyrr í mánuðinum fyrir utan aðsetur ríkissáttasemjara.
Ljósmæður mótmæltu fyrr í mánuðinum fyrir utan aðsetur ríkissáttasemjara. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst þetta góður fundur og þarfur,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands, en nefndin fundaði með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðshúsinu í morgun. 

„Já, við erum vongóðar. En hún gerði okkur það þó ljóst að hún mun ekki veifa töfrasprota og leysa deiluna þannig heldur sýndi okkur hluttekningu og góða áheyrn. Hún mun kalla til og ræða þetta við sitt fólk náttúrulega,“ segir Katrín Sif.

Katrín segir ljósmæður hafa farið yfir stöðu mála í ljósmæðrastétt almennt með forsætisráðherra. Hún segir ljósmæður hafa tekið á sig aukna ábyrgð síðustu ár sem ekki hafi verið mætt með sanngjörnum launum og á því séu margar í starfsstéttinni orðnar langþreyttar. 

Blóðtakan mikil

Líkt og mbl.is greindi frá í dag hafa 23 ljós­mæður í um 15 stöðugild­um sagt upp störf­um á Land­spít­ala síðan kjara­deila ljós­mæðra við ríkið hófst í vor. Aðspurð segist Katrín Sif vona að uppsagnirnar gangi til baka. „Stéttin er svo lítil að það er rosaleg blóðtaka ef hver einasta sem hefur sagt upp störfum sínum kemur ekki til baka. En við vitum það fyrir að heimturnar verða aldrei 100%, það eru margar sem hafa gefið það út að þær geti ekki meir og hafa ráðið sig annars staðar.“

Þá segir Katrín að í hópi þeirra ljósmæðra sem sagt hafa störfum sínum lausum séu mikið til reynslumiklar konur sem búi yfir verðmætri þekkingu. „Þetta eru eldri ljósmæðurnar sem hafa mætt miklu mótlæti núna í langan tíma og eru að ganga út með gríðarlega þekkingu og reynslu. Þannig að blóðtakan er mikil fyrir stéttina í heild [...]. Það stefnir í óefni og það er staðreynd sem þarf að bregðast við strax,“ segir Katrín Sif. 

Samninganefnd ljósmæðra mun að öllum líkindum funda með samninganefnd ríkisins á fimmtudag þar sem reynt verður að komast að samkomulagi. Katrín Sif segir ljósmæður vonast til þess að deilan muni brátt taka enda. „Við förum alltaf fullar bjartsýni inn á alla fundi með mikinn samningsvilja og lausnamiðaða hugsun. Við munum við labba inn á fundinn og með einlæga von um að mæta því viðhorfi líka,“ segir Katrín Sif. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert