Önnur sjúkrahús geta takmarkað hjálpað

Heilbrigðisstofnanir í nágrenni Reykjavíkur geta lítið gert til að létta …
Heilbrigðisstofnanir í nágrenni Reykjavíkur geta lítið gert til að létta á álaginu á Landspítalanum. mbl.is/Árni Sæberg

Heilbrigðisstofnanir í nágrenni Reykjavíkur geta að afar takmörkuðu leyti veitt aukna þjónustu, líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætlun Landspítalans sem virkjuð var um mánaðamótin vegna ástandsins sem skapast hefur vegna kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.  

Það er aðeins Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi (HVE) sem getur sinnt bráðaþjónustu, en þar eru kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir á vakt allan sólarhringinn og aðgangur að skurðstofu. Allar konur í áhættumeðgöngu eru hins vegar sendar á Landspítalann. Ástandið á HVE er þó líka erfitt vegna sumarfría og lokunar deilda. Staðan á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er þannig að það er hvergi nærri næg mönnun til að keyra venjulega starfsemi á þessum árstíma, hvað þá annað. Þar eru fjórar ljósmæður af átta búnar að segja upp störfum. Þá eru ekki mörg pláss í sængurlegu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi (HSU) og lítið bolmagn til aukinnar þjónustu.

„Við höfum ekki mikið bolmagn þessar vikurnar“

Jóhanna Jóhannesdóttir, forstjóri HVE, segir stofnunina reyna að veita aðstoð þegar rólegt er hjá þeim, en það sé metið hverju sinni.

HVE hafi til að mynda geta hjálpað til með svokallaða valkeisara, en þá er um að ræða keisaraskurði sem ákveðnir eru fyrir fram og tímasettir. „Þau leita til okkar ef það er eitthvað og þá reynum við að verða við því. En ef það er einhver toppur hér þá er það ekki hægt. Við höfum ekki mikið bolmagn þessar vikurnar,“ segir Jóhanna.

HSU gaf vilyrði fyrir því að taka við konum af …
HSU gaf vilyrði fyrir því að taka við konum af Suðurlandi, sem hafa fætt á Landspítalanum, ef pláss er í sængurlegu. mbl.is/Guðmundur Karl

„Verklagið er þannig að það er haft samband á milli deildanna hér og deildanna á Landspítalanum og það er skoðað frá degi til dags. Það er ekki hægt að ákveða neitt langt fram í tímann. Þessi tími er erfiður fyrir okkur þar sem sumarfríin eru í hámarki og auk þess eru tvær deildir reknar saman hjá okkur vegna viðgerða, þannig við erum með færri rúm en oft áður. Við erum því með algjöra lágmarksmönnun.“

Taka við konum af Suðurlandi ef hægt er

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi (HSU) er svokallaður D-fæðingarstaður, ljósmæðrarekin eining án lækna, og getur því ekki sinnt bráðaþjónustu líkt og HVE. Þá hefur HSU lítið bolmagn til að bæta við sig konum í sængurlegu.

„Það sem ég gaf vilyrði fyrir í þessari aðgerðaáætlun var raun og veru bara að taka við konum af okkar svæði, sem fæða á Landspítalanum, og ef ég er með pláss í sængurlegu. En ég er ekki með mörg pláss yfir höfuð. Svo þarf að vera ljósmóðir á vakt. Það er því ekki svo mikið sem við getum tekið,“ segir Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir á HSU, í samtali við mbl.is.

HVE hefur getað létt undir með valkeisaraskurðum, en bolmagnið til …
HVE hefur getað létt undir með valkeisaraskurðum, en bolmagnið til að aðstoða er ekki mikið. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við tökum á móti konum í fæðingu sem hafa átt eðlilega meðgöngu og eru í eðlilegri fæðingu, ekki með neina fylgikvilla eða áhættuþætti sem gera það að verkum að þær mega ekki fæða hjá okkur. Við gætum ekki tekið við konum eða börnum sem væru veik því við erum ekki með sérfræðinga á bak við okkur. Það væru bara heilbrigðar konur sem væru að fara í heimaþjónustu til ljósmæðra hvort eð er. Þær þá koma kannski aðeins við hér, sem þær myndu annars ekki gera. Það er það eina sem hægt er að brúa hjá okkur.“

Sigrún segir það því mjög takmarkað sem HSU geti gert, þrátt fyrir að í aðgerðaáætlun Landspítalans sé tekið fram að samið hafi verið um að heilbrigðisstofnunin veiti aukna þjónustu.

Hún segir stöðuna sem komin er upp mjög sorglega. „Þrátt fyrir að við finnum ekki eins mikið fyrir þessu og Landspítalinn, þá er þetta öllum ljósmæðrum mjög þungt.“

Fjórar af átta ljósmæðrum búnar að segja upp

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er einnig ljósmæðradrifin eining, líkt og HSU. Fæðingardeildinni þar hefur verið lokað yfir sumartímann síðustu ár, en til stóð að hafa hana opna í sumar. Það hefur ekki gengið sem skyldi og takmarka þarf þjónustuna frá og með næstkomandi föstudegi.

„Við reynum að aðstoða eins og við getum en við erum sjálfar undirmannaðar. Frá næsta föstudegi erum við með skerta þjónustu vegna undirmönnunar og sumarfría. Þá verður bara opið til 10 á kvöldin og lokað um helgar. Þannig að við getum lítið hjálpað. Við reynum þó að koma til móts eins og hægt er,“ segir Jónína. Birgisdóttir, yfirljósmóðir á HSS.

Fjórar af átta ljósmæðrum á HSS hafa sagt upp störfum. …
Fjórar af átta ljósmæðrum á HSS hafa sagt upp störfum. Uppsagnirnar taka gildi 1. september. mbl.is/Helgi Bjarnason

Frá og með föstudeginum þarf að senda allar fæðandi konur frá Suðurnesjum til Reykjavíkur, nema þær séu einfaldlega komnar af stað í fæðingunni. „Ástandið er slæmt á Landspítalanum þannig ég veit ekki hvernig þetta verður.“

Halldór Jónsson, forstjóri HSS, segir starfsfólk heilbrigðisstofnana hafa hist á Landspítalanum fyrir nokkrum dögum og fundað vegna aðgerðaáætlunarinnar. Þar hafi strengir verið stilltir saman eins og hægt var. Það sé mikill vilji til að hjálpa en mannekla takmarki getuna til þess.

„Stofnunin, hvort sem það ljósmæðravakt eða annað, hefur vaxið fram um það að geta almennt orðið til hjálpar og tekið við sjúklingum frá Landspítala eða hvort það er frá einhverjum öðrum deildum, sem þurfa þá að klára legu sína til hér,“ segir Halldór, en hann veit líka til þess að konur hafi klárað sængurlegu á HSS síðustu daga. „Það er ekki bara Landspítalinn sem þrengir að, það þrengir að öðrum líka. Þessi eining hér er mjög lítil, það eru átta ljósmæður starfandi. Fjórar af þeim eru búnar að segja upp og það kemur til framkvæmda 1. september.“

Líkt og áður sagði hefur fæðingardeildinni á HSS verið lokað yfir sumartímann en í ár var tekin ákvörðun um að reyna að hafa opið þessar fjórar til sex vikur sem um ræðir. „Við hugsuðum fyrir því inn í okkar áætlanagerð en það fékkst ekki fólk til starfa. Engu að síður var ákveðið að reyna að halda meiri þjónustu gangandi í sumar en áður en sá þáttur er meira og minna að hrynja. Við erum öll að vilja gerð, en fólkið getum við ekki klónað frekar en aðrir.“ Halldór segir mönnunina hvergi nærri næga til að keyra venjulega starfsemi á þessum árstíma, ef verða eigi við einhverjum hluta þeirra fría sem fólk á rétt á að taka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert