Upplifði sig alltaf öruggan í Hítardal

Finnbogi Leifsson, bóndi á Hítardal.
Finnbogi Leifsson, bóndi á Hítardal. mbl.is/Eggert

„Það er erfitt að lýsa því,“ segir Finnbogi Leifsson bóndi í Hítardal um hvernig það var að upplifa hamfarir svo nálægt heimili hans. Stór grjótskriða féll úr Fagraskógarfjalli á laugardagsmorgun og endaði aðeins örfáum kílómetrum frá bæ Finnboga.

Finnbogi er 63 ára gamall og hefur búið í Hítardal alla sína ævi. Hann segir sig og fjölskyldu sína alltaf hafa upplifað sig örugg á bænum og að atvik eins og það sem átti sér stað á laugardag hafi aldrei hvarflað að þeim. „Þó ég væri búinn að sjá þetta var maður kannski ekki alveg að trúa því, og áttaði sig náttúrulega ekki á því hvað þetta væri umfangsmikið fyrr en maður fór á staðinn.“

Skriðan stíflaði Hítará með þeim afleiðingum að hún fann sér …
Skriðan stíflaði Hítará með þeim afleiðingum að hún fann sér nýjan farveg. Kort/mbl.is

Skriðan er ein sú stærsta sem fallið hefur á sögulegum tíma á Íslandi, en samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands er hún 10 til 20 milljónir rúmmetra, flatarmál hennar er um 1,5 milljónir fermetra og er hún 20 til 30 metrar að þykkt þar sem hún er þykkust.

Að sögn Finnboga var svæðið sem varð undir skriðunni mestmegnis gróið landsvæði. Hann segir talsvert beitiland hafa orðið undir en að ómögulegt sé að segja til um það hvort fé hafi verið á svæðinu þegar skriðan féll.

„En þarna er náttúrulega mikil umferð ferðafólks að sumri til, veiðimanna og túrista,“ segir Finnbogi. Hann segir mikla mildi að ekkert fólk hefði orðið undir skriðunni. Skriðan mældist á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar klukkan 05:17 á laugardagsmorgun. „Það er kannski gott að þetta féll snemma morguns.“

Ekki víst að tjónið fáist bætt

Finnbogi segir enn ekki komið í ljós hvers konar og hversu umfangsmiklu tjóni hann hefur orðið fyrir vegna skriðunnar. „Það fer þetta land, það hefur svosem ekki úrslitaáhrif á búskap. En svo stíflaðist Hítará og hún er mikil laxveiðiá. Hún kom sér í annan farveg og það er óljóst hvaða áhrif það hefur á lífríki og veiði í ánni.“

Finnbogi hefur búið að Hítardal alla sína ævi sem spannar …
Finnbogi hefur búið að Hítardal alla sína ævi sem spannar 63 ár. mbl.is/Eggert

Áin liggur enn innan landsvæðis Finnboga en hann segir ekki liggja fyrir hvaða landskemmdir verða vegna nýs farvegs Hítarár, en hún stíflaðist vegna skriðunnar svo mikið lón myndaðist þar til hún fann sér farveg í hliðaránni Tálma.

„Ég er nú ekki farinn að hugsa svo langt,“ segir Finnbogi aðspurður hvort hann geti leitað sér bóta vegna tjónsins, en Náttúruhamfaratrygging Íslands, áður Viðlagatrygging Íslands, veitir aðeins tryggingu þegar vátryggðar eignir verða fyrir tjóni í náttúruhamförum. „Mig grunar að það séu ekki miklir möguleikar.“

mbl.is