Í styrjöld við þá stétt sem allir dá mest

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, segir „fullveldisfárið“ snúast um „danskan gest sem segi íslenskum þingmönnum að þeir séu dónar og eigi við kynþroskavanda að stríða“.

Össur skrifar um málið í knöppum texta á Facebook í morgun. Þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, yfirgaf hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum á miðvikudag er Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og stofnandi Danska þjóðarflokksins, hóf ræðu sína. Hún fór einnig út er Kjærsgaard flutti ræðu við hátíðarkvöldverð á Hótel Sögu í fyrradag. Píratar sniðgengu hátíðarfundinn á Þingvöllum vegna komu hennar.

„Vinstrisinnaður þingforseti biðst afsökunar í fjölmiðlum á Pírötum og sósíaldemókrötum sem ekki elska Piu Kjærsgaard jafn mikið og hann,“ skrifar Össur. „Pútín ver Trump. Trump ræðst á Merkel og May. Konur úr VG stýra ríkisstjórn og heilbrigðismálum – og fara í styrjöld við þá stétt sem allir dá mest. Þetta er að verða ansi mikið rigningarsumar...“

„Stéttin sem allir dá mest“ eru ljósmæður en kjaradeila þeirra við ríkið er enn í miklum hnút og hafa uppsagnir fjölda þeirra og yfirvinnuverkfall þegar haft mikil áhrif á sjúkrahús landsins, aðallega Landspítalann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert