Miðast við tímann sem telst nauðsynlegur

MAST segir einangrunartímann miðast við þann tíma sem er talinn …
MAST segir einangrunartímann miðast við þann tíma sem er talinn nauðsynlegur upp á meðgöngutíma mögulegra sjúkdóma og jafnframt við þær sýnatökur sem taldar eru nauðsynlegar. Mynd úr safni. AFP

„Einangrunartíminn miðast við þann tíma sem er talinn nauðsynlegur upp á meðgöngutíma mögulegra sjúkdóma og jafnframt við þær sýnatökur sem taldar eru nauðsynlegar og þann tíma sem menn telja sig þurfa að hafa ef eitthvað er í þessum dýrum sem eru að koma inn hverju sinni,“ segir Þorvaldur H. Þórðarson, framkvæmdastjóri markaðsstofu hjá Matvælastofnun (MAST).

Sam­kvæmt nú­ver­andi reglu­verki ber þeim gælu­dýr­um sem flutt eru til lands­ins að sæta fjög­urra vikna ein­angr­un og segir Þorvaldur þann tíma líka ætlaðan til þess að tími gefist til að meðhöndla dýrin og til að sannreyna að sníkjudýrið eða sýkingin sé horfin úr dýrinu.

Hunda­rækt­ar­fé­lag Íslands (HRFÍ) sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu í síðustu viku þar sem það seg­ir rök um lengd ein­angr­un­ar gælu­dýra ekki stand­ast. Kall­aði félagið eft­ir áhættumati land­búnaðarráðuneyt­is um ein­angr­un­ar­vist gælu­dýra sem átti að vera til­búið í apríl á þessu ári. Ráðuneytið greindi frá því í gær að áhættumatið yrði kynnt sérfræðingum á næstu vikum.

HRFÍ hef­ur lengi viljað end­ur­skoðun á reglu­verk­inu, sem er orðið 15 ára gam­alt, enda er það mat fé­lags­ins að nú­ver­andi ein­angr­un­ar­regl­ur brjóti í bága við lög um dýra­vel­ferð. Sagði Her­dís Hall­m­ars­dótt­ir, formaður HRFÍ, í sam­tali við mbl.is fyrir helgi að félagið hafi ekki fengið hald­bær rök fyr­ir því hvers vegna lengri ein­angr­un en 10 dag­ar er nauðsyn­leg þegar strangasta lög­gjöf­in utan Íslands er 10 dag­ar.

Herdís hefur bent á í tengslum við einangrunarlengdina að gæta þurfi að því að dýrið hafi allar bólusetningar í lagi áður en það komi til landsins. Eins þurfi að láta rannsaka mótefni í blóði gegn hundaæði og innan við mánuði áður en dýrið fái að koma hingað, þurfi að láta framkvæma blóð- og saursýni til að tryggja að allar niðurstöður séu í lagi. Reynist svo ekki vera fái dýrið ekki að koma til landsins.

Fimm dögum fyrir komuna er hundurinn svo heilsufarsskoðaður og meðhöndlaður fyrir bandormum og útvortis sníkjudýrum. „Hverju bætir 4 vikna innilokun og endurtekning á rannsóknum við öll þessi skilyrði sem þarf að uppfylla áður en hundurinn fær að koma til landsins?“ spyr hún.

217 hundar voru fluttir til Íslands árið 2016 og 49 …
217 hundar voru fluttir til Íslands árið 2016 og 49 kettir. Mun meira er almennt flutt inn af hundum en köttum, en fjöldinn sveiflast þó eftir árferði. Mynd úr safni. AFP

Dró úr innflutningi eftir hrun

217 hundar voru fluttir til Íslands árið 2016 og 49 kettir. Mun meira er almennt flutt inn af hundum en köttum, en fjöldinn sveiflast þó eftir árferði. Verulega dró því úr innflutningi gæludýra á fyrstu árunum eftir hrun. Þannig voru 232 hundar og 31 köttur fluttir inn árið 2006, en árið 2009 voru hundarnir 125 og kettirnir 26.

Að sögn Þorvaldar er ekki hægt að vinna prófanir og sýnatökur úr innfluttum dýrum á skemmri tíma en nú er. „Við tökum pöruð blóðsýni sem eru tekin 3-4 dögum eftir að dýrin koma og svo tökum við aftur sýni hálfum mánuði síðar.“ Þau sýni séu síðan send utan til greiningar. „Þetta er talinn nauðsynlegur tími til að fá niðurstöður úr rannsóknunum til baka, til þess að geta brugðist við ef eitthvað kemur upp á.

Spurður hvort vinnslan tæki skemmri tíma ef sýnin væru rannsökuð hér heima segir hann niðurstöðuna, þegar ákveðið var að hefja blóðsýnatökur, hafa verið að ekki væri forsvaranlegt að setja upp mælingar á þeim hér á landi. „Öll okkar blóðsýni fara í gegnum tilraunastöðina á Keldum og hún sá ekki möguleika á því að greina þetta sjálf. Það var því afráðið að senda þau utan,“ segir Þorvaldur. Starfsmenn á Keldum sjái alfarið um þann hluta. MAST sendi þeim sýnin, sem síðan séu unnin á Keldum, gengið frá þeim, þeim pakkað og send út. Móttaka á niðurstöðum er þær berast fer svo einnig í gegnum Keldur.

Þyrfti annað kerfi ef stytta ætti einangrunarvistina

Samfara kröfunni um endurskoðun einangrunartímans hefur HRFÍ bent á að í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi, þar sem reglur um innflutning eru hvað strangastar, sé einangrunarvistin ekki nema 10 dagar.

Þorvaldur segir nálgunina í þeim ríkjum aðra en hér á landi, sem geri þeim kleift að hafa einangrunartímann styttri í sumum tilfellum. Ástralía og Nýja-Sjáland flokki ríki og því fari það eftir löndum og þeim áhættuflokki sem þau tilheyra hversu löng einangrunin er.

„Í sumum tilvikum er hún alveg jafnlöng og hér og jafnvel lengri, þannig að það fer alveg eftir því frá hvaða ríkjum dýrin eru að koma. Það er því kannski erfitt að bera sig saman við þessi ríki eins og staðan er núna,“ útskýrir hann.

Spurður hvort ástæða sé til að horfa til flokkunar hér á landi segir Þorvaldur ákveðna flokkun þegar í gildi, ríki þar sem hundæði kunni að vera að finna og svo ríki sem eru laus við sýkinguna. Frekari flokkun sé hins vegar erfið.

„Okkar kerfi er með öðrum hætti,“ segir hann. „Við erum að fá dýr úr nánast öllum heimsálfum og við vinnum eftir öðru kerfi.“ Á Íslandi komi öll dýr inn í einangrun á sama tímabili hvers mánaðar og þeim sé svo hleypt út öllum í einum. Í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi sé dýrum bætt við hverju á eftir öðru. „Það yrði að vera annað kerfi til að það væri gert.“

Samkvæmt íslenska kerfinu eru dýr tekin inn yfir þriggja daga tímabili. Einangrunarstöðinni er því næst lokað í þá 28 daga sem dýrin eru þar inni. Síðan er dýrunum öllum hleypt út á sama tíma, í kjölfarið er einangrunarstöðin tóm í að lágmarki tvo sólarhringa á meðan hún er þrifin og sótthreinsuð áður en næsta hóp er hleypt inn. Þorvaldur segir erfitt að viðhalda því kerfi sé einangrunartíminn mislangur eftir löndum.   

Pláss er fyrir um 30 hunda og 10 ketti í Einangrunarstöðinni Reykjanesbæ á hverjum tíma og einangrunarstöðin Mósel, sem opna á í byrjun næsta mánaðar, mun geta tekið á móti 16 hundum og þremur köttum. Næst er laust fyrir bókanir í Einangrunarstöðinni Reykjanesbæ í febrúar á næsta ári og í Móseli eru næstu pláss laus í mars það ár, en gagnrýnt hefur verið að það taki langan tíma að koma dýrum til landsins.  

„Það hefur verið vandamál með biðlista,“ segir Þorvaldur. „Það hefur lengi vel verið bara ein einangrunarstöð sem hefur því miður komið þannig út að það hefur verið biðlisti sem er óheppilegt, en þannig er staðan því miður.“ Sú staða breytist hugsanlega með opnun nýju stöðvarinnar. „Það er önnur einangrunarstöð í bígerð sem á að taka til starfa á næsta misseri, og þá verður þetta vonandi þægilegra fyrir þá sem á þurfa að halda,“ bætir hann við.

Pláss er fyrir um 30 hunda og 10 ketti í …
Pláss er fyrir um 30 hunda og 10 ketti í Einangrunarstöðinni Reykjanesbæ á hverjum tíma og einangrunarstöðin Mósel, sem opna á í byrjun næsta mánaðar, mun geta tekið á móti 16 hundum og þremur köttum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áhættan eykst með aukinni umgengni

HRFÍ hefur einnig gagnrýnt að eigendum sé ekki heimilt að heimsækja dýr sín meðan á einangruninni stendur og hefur bent á að slíkt sé til að mynda leyfilegt á Nýja-Sjálandi. „Þetta er spurning um áherslur og hversu mikla vörn maður vill veita í þessu samhengi,“ segir Þorvaldur. Því meiri umgengni sem sé í einangrunarstöðinni því meiri sé áhættan. „Síðan er líka spurning hvað það sé gott fyrir dýrin að fá svona heimsóknir,“ bætir hann við. „Dýrin eru að koma úr ákveðnu umhverfi, oftast nær sínu heimilisumhverfi og það tekur þau nokkra daga að aðlagast þessum nýju staðháttum, en þá eru þau líka orðin mjög aðlöguð og í flestöllum tilfellum bara nokkuð hress og kát.“ Rót virðist hins vegar komast á þau ef einhver nákominn kemur til heimsókn. „Þannig að það er líka sjónarmið í þessu.“

Bent hefur verið á að það eigi illa við hunda að hafa ekkert að gera og hafi sumir þeirra komið illa út úr einangruninni. Sagðist Herdís m.a. þekkja það á eigin skinni að einangrunarvistin hafi farið illa í hunda.

„Ég held að allir þeir sem koma að þessum málum og vinna á þessum einangrunarstöðvum séu mjög meðvitaðir um þessa hluti og reyni að gera þeim þetta eins léttbært og hægt er,“ segir Þorvaldur.

Þarf að sannreyna að sníkillinn sé horfinn

Í grein þriggja vísindamanna, þeirra Matth­íasar Ey­dals, Karls Skírnissonar og Guðnýjar Rutar Pálsdóttur, sem nýlega var birt í vef­vís­inda­rit­inu Icelandic Agricultural Sciences, eru sníkjudýr sögð hafa borist í íslenska dýrastofna með inn­flutt­um gælu­dýr­um.

„Það er alltaf eitthvað sem er að koma þar upp og sem hefur verið hægt að koma í veg fyrir að berist til landsins með því að hafa þessa einangrun,“ segir Þorvaldur. Dýrið sé þá meðhöndlað í stöðinni. „Það er ekki nóg bara að meðhöndla dýrið, það þarf svo líka að taka sýni aftur og sannreyna að sníkillinn sé horfinn,“ bætir hann við og vísar þar til lengdar einangrunartímans.

Þorvaldur segir sér hins vegar ekki vera kunnugt um að það hafi þurft að fella dýr sem var í einangrun, eða flytja það aftur úr landi vegna sjúkdóms eða sníkils sem það bar með sér. „Það ber þó líka að horfa til þess að við erum með mikið umsóknarferli áður en dýrin koma og skilyrði fyrir inntöku.“ Stöku sinnum hafi þá komið upp sú staða að synjað hafi verið um innflutning á dýri af því að það hafi ekki uppfyllt skilyrði varðandi tímasetningu, bólusetningar, sýnatökur eða annað slíkt. „Þannig að það má segja að það sé smá varnagli þar líka.“

Á Íslandi koma öll gæludýr inn í einangrun á sama …
Á Íslandi koma öll gæludýr inn í einangrun á sama tímabili hvers mánaðar og er þeim svo hleypt út öllum í einu. AFP

Jólatrén áhættumiðaður innflutningur

Spurður hvort sníklar og sjúkdómar geti ekki einnig borist til landsins með farfuglum, gróðri, mold og ferðamönnum, segir Þorvaldur: „Þetta er þekkt fyrirbæri að verjast sjúkdómum með innflutningi á alla vegna tömdum dýrum, búfé og gæludýrum. Þetta er eitthvað sem hægt er að koma við með þokkalegu móti.“ Hinu segir hann erfitt að stjórna og kastar fram þeirri spurningunni hvernig hægt sé að verjast farfuglum.

Eina moldin sem flytja megi inn hingað til lands sé þá mómold úr mógröfum af svæðum þar sem ekki hafi verið búfénaður eða mikið af skepnum. Hana megi flytja inn í mjög takmörkuðu magni. Plöntur komi svo til landsins mikið til moldarlausar og þeim fylgi yfirleitt heilbrigðisvottorð um að á þeim sé ekki á þeim að finna nein sníkjudýr eða skaðvalda.

Þorvaldur viðurkennir þó að innflutningur erlendra jólatrjáa sé vissulega áhættumiðaður innflutningur. „Blessunarlega er ekki mikið sem hefur komið inn með þeim til þessa,“ segir hann. „Flest jólatré enda líka inni á heimilum og kannski lítil hætta á að það komist í gróðurinn eða annað.“

Á að koma með fatnað til landsins sótthreinsaðan og þrifinn

Í Ástralíu gilda tak­mark­an­ir um að þeir sem þangað koma mega ekki koma til lands­ins með skít­uga skó þar sem þeir hafa t.d. verið uppi í sveit í öðrum lönd­um. Brot á þeim regl­um get­ur varðað háum sekt­um. Spurður hvort ekki sé þörf fyrir sambærilegar reglur hér, segir Þorvaldur þær þegar vera í gildi.

„Þú átt að koma með þinn fatnað þrifin og sótthreinsaðan ef þú hefur verið einhvers staðar nálægt dýrum. Þetta er á heimasíðu okkar á bæði íslensku og ensku.“ MAST sé stöðugt að vekja athygli á þessu og gefnir hafi verið út bæklingar um málið á bæði íslensku og ensku.  

„Tollurinn er til að mynda eftirlitsaðili á Keflavíkurflugvelli sem er mjög meðvitaður um þessa hluti,“ bætir hann við. Hver og einn eigi að gæta sín á þessum hlutum, en þarna sé vissulega ákveðin hætta og ástæða til að horfa til þessara hluta.

„Við erum alltaf að því og erum að beina þessum tilmælum til ferðaskrifstofa og þeirra sem eru með hestaferðir og fleira. Þannig að við erum sífellt á varðbergi í þessum efnum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert