Umbylting samgöngukerfisins nálgast

„Við erum hérna að setja fram heildstæða áætlun sem nær til allra geira samfélagsins,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra í samtali við mbl.is, en sjö ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu í dag aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum á blaðamannafundi í Austurbæjarskóla.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði tvær ástæður fyrir því að fundurinn væri haldinn í Austurbæjarskóla. Annars vegar væri það sökum þess að hitaveituvæðing Reykjavíkur hefði hafist þar árið 1930, en þá var heitt vatn úr Laugardal leitt í Austurbæjarskóla, auk Landspítala og sextíu íbúðarhúsa.

Orkuskiptabyltingin sem stefnt er að í aðgerðaáætluninni sem ríkisstjórnin kynnir nú, er sögð sambærileg því átaki sem þurfti til við að hitaveituvæða landið.

Hins vegar sagði Katrín að það væri viðeigandi að halda fundinn í skóla, þar sem aðgerðir í loftslagsmálum snertu þá kynslóð sem nú væri að vaxa úr grasi og framtíðarkynslóðir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er risavaxið verkefni sem við erum öll saman í,“ sagði Guðmundur Ingi á fundinum í dag, en á næstu fimm árum verður 6,8 millj­örðum króna varið til sér­stakra aðgerða í lofts­lags­mál­um hér á landi, sem er marg­föld­un miðað við und­an­far­in ár.

„Við erum að taka fyrstu skrefin í að umbylta samgöngukerfinu okkar, skipta úr olíu yfir í aðrar og umhverfisvænni leiðir til þess að knýja okkar samgöngukerfi. Á sama tíma er líka mikilvægt að styrkja almenningssamgöngur, bæði bæta möguleika fólks á að nýta sér þær, en líka að gera almenningssamgöngurnar umhverfisvænni í sjálfu sér,“ segir Guðmundur Ingi.

„Það hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til loftslagsmála og þau birtust auðvitað í fjármálaáætluninni okkar síðastliðið vor og í síðustu fjárlögum, en það má segja að nú sé það staðfest hvernig við ætlum að verja þessum fjármunum og það skiptir auðvitað máli að fjárfesta í þessum gríðarlega mikilvægu málaflokkum,“ segir Katrín.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundinum í Austurbæjarskóla í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundinum í Austurbæjarskóla í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta snýst annars vegar um að uppfylla markmið Parísarsáttmálans og að ná því markmiði sem þessi ríkisstjórn setti sér í stjórnarsáttmála, að Ísland yrði kolefnishlutlaust árið 2040, ekki seinna en 2040,“ bætir forsætisráðherra við.

Horft til fordæmis Norðmanna

Sú aðgerð í aðgerðaáætluninni sem kannski snertir daglegt líf almennings hvað mest, er að stefnt er að því að nýskráningar á bensín- og dísilbílum verði bannaðar eftir árið 2030, nema með sértækum undanþágum.

„Við horfum til Norðmanna sem hafa verið fremstir í flokki í þessum málum og hafa raunar ákveðið að heimila engar slíkar nýskráningar eftir 2025, nema þá með einhverjum slíkum undanþágum og við ætlum að fylgja í kjölfarið,“ segir Katrín.

Árið 2030 er stefnt að því að rafmagnsbílar á landinu verði orðnir 100.000 talsins, samkvæmt því sem fram kemur í aðgerðaáætluninni, en þeir eru einungis brotabrot af bílaflota landsmanna í dag. Því þarf að ráðast í mikla uppbyggingu.

„Það skiptir máli að við séum reiðubúin og búin að byggja upp innviði til að almenningur geti ráðist í þessi orkuskipti, því það er líka stórt efnahagslegt spursmál fyrir venjulegt fólk að eyða minna í rekstur á samgöngutækjum, eins og raunin gæti orðið,“ segir Katrín.

Ríkið hefur í dag töluverðar tekjur af sköttum á jarðefnaeldsneyti, en Katrín segir að til framtíðar verði að horfa á endurskoðun gjaldaumhverfisins til þess að tryggja rekstur og viðhald vegakerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert