Fleiri vilja stöðugt verðlag en launahækkanir

„Stytting vinnutíma er mikilvægasta málið í komandi kjaraviðræðum að mati …
„Stytting vinnutíma er mikilvægasta málið í komandi kjaraviðræðum að mati Íslendinga en því næst koma hófstilltar launahækkanir,“ segir SA. mbl.is/​Hari

Fleiri eru hlynntir en andvígir kjarasamningum þar sem lögð er meiri áhersla á stöðugt verðlag en launahækkanir, að því er fram kemur í könnun sem Gallup gerði fyrir Samtök atvinnulífsins.

Þar segir að helmingur svarenda sé hlynntur kjarasamningum þar sem meiri áhersla sé lögð á stöðugt verðlag og minni áhersla á launahækkanir en fjórðungur er andvígur slíkum samningum. Fjórðungur er hvorki hlynntur né andvígur, að því er fram kemur á vef SA.

„Niðurstöður könnunarinnar sýna afdráttarlaust að Íslendingar eru ekki tilbúnir til að fórna ávinningi stöðugs verðlags með launahækkunum sem setja verðbólgu á skrið. Stytting vinnutíma er mikilvægasta málið í komandi kjaraviðræðum að mati Íslendinga en því næst koma hófstilltar launahækkanir,“ segir SA. 

Könnun Gallup fyrir SA var gerð 24. ágúst til 3. september 2018. Markmið hennar var að kanna viðhorf almennings til áherslna í komandi kjarasamningum og breytingar þar á frá fyrri mælingum. Um var að ræða netkönnun, úrtak var 1.445 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 773 og svarhlutfall 53,5%.

Í könnuninni var fólk beðið um að velja á milli tveggja leiða í kjaramálum með því að svara hvort það væri hlynnt eða andvígt kjarasamningum þar sem lögð yrði meiri áhersla á stöðugt verðlag og minni áhersla á launahækkanir.

Þá segir að samkvæmt könnuninni hafi tveir þriðju hlutar landsmanna áhyggjur af mikilli verðbólgu.

Nánar á vef SA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert