Dýralæknar fái tækifæri til íslenskunáms

Kýr á beit.
Kýr á beit. mbl.is/Eggert

„Þetta leysir ekki þann vanda sem Matvælastofnun stendur frammi fyrir,“ segir Charlotta Oddsdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, um frumvarp sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti fyrir ríkisstjórninni fyrir helgi. Verði frumvarpið að lögum verður ekki lengur gerð krafa um að dýralæknar sem starfa á Íslandi tali íslensku.

Í umsögn Dýralæknafélagsins vegna frumvarpsins er bent á mikilvægi þess að dýralæknar í opinberum störfum hafi vald á íslenskri tungu til að geta tryggt heilnæmi afurða, sjúkdómavöktun og gætt að velferð dýra sem og tryggja örygg samskipti í opinberri stjórnsýslu.

„Það að Dýralæknafélagið geri athugasemd við þetta er ekki vegna þess að það vill ekki fá erlenda dýralækna til starfa, heldur vegna þess að kröfur um íslenskt stjórnsýslutungumál eru lögbundnar og það eru ástæður fyrir því,“ segir Charlotta. „Dýralæknar þurfa að skilja og þekkja íslensk lög og geta flett upp í þeim.“

Erfitt hefur reynst að manna stöður dýralækna hér á landi …
Erfitt hefur reynst að manna stöður dýralækna hér á landi með íslenskumælandi dýralæknum, og hefur vandinn verið árstíðabundinn í kringum sláturtíð að hausti. Ljósmynd/Sigurður Jónsson

Erfitt hefur reynst að manna stöður dýralækna hér á landi með íslenskumælandi dýralæknum, og hefur vandinn verið árstíðabundinn í kringum sláturtíð að hausti. Charlotta segir mikla starfsmannaveltu, bæði meðal íslenskra, íslenskumælandi og erlendra dýralækna, hjá Matvælastofnun, líkt og hjá öðrum opinberum stofnunum.

„Það er væntanlega af því það er mikið álag. Það er vísbending um að stofnunin sé undirmönnuð, ekki síst vegna fjársveltis.“

Myndi hvetja íslenska dýralækna til að koma heim

Charlotta segir Dýralæknafélagið vilja sjá meira fé sett í Matvælastofnun til þess að hægt sé að ráða fólk í sérhæfð verkefni. „Það myndi hvetja íslendinga sem læra dýralækningar til þess að koma heim, og veita stofnuninni ráðrúm til þess að gera erlendum dýralæknum kleift að tileinka sér íslensku.“

Í umsögn Dýralæknafélagsins segir að hingað til hafi stuðningur erlendra dýralækna til íslenskunáms verið af skornum skammti. „Fæstum hefur verið boðið að þiggja íslenskunámskeið og þar af leiðandi hafa margir hverjir ekki þekkingu á íslenskum lögum eða reglugerðum sem þeim er þó treyst fyrir til að vinna eftir.“

Vegið að matvælaöryggi

Charlotta segir að lagabreytingin yrði skammtímalausn. Þrátt fyrir að hún gerði Matvælastofnun kleift að ráða fleiri dýralækna gætu þeir ekki skrifað eftirlitsskýrslur eða haft samband við eftirlitsþega. Tvívinna þyrfti hverja skýrslu, sem yki álag á samstarfsfólk.

„Verði þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr samþykkt á Alþingi er vegið verulega að matvælaöryggi, heilsufari og velferð búfjár og það verður enn erfiðara að fá íslenska dýralækna til að starfa hjá því opinbera,“ segir í umsögn Dýralæknafélags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert