Blæs á fullyrðingar um stirt samband

Jökull Gunnarsson, forstjóri kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka.
Jökull Gunnarsson, forstjóri kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er alveg orðlaus,“ var það fyrsta sem Jökull Gunnarsson, forstjóri kís­il­málm­verk­smiðju PCC á Bakka, sagði þegar hann var inntur viðbragða við ummælum Aðalsteins Árna Baldurssonar, formanns stéttarfélagsins Framsýnar, um óánægju starfsfólks á Bakka.

Jökull, sem tók við sem forstjóri kísilverksmiðjunnar á Bakka um miðjan síðasta mánuð, segir að margt í málflutningi Aðalsteins sé ekki rétt. Í Fréttablaðinu kom fram að mikil starfsmannavelta væri hjá fyrirtækinu og að meirihluti nýrra starfsmanna kæmi frá Eistlandi.

„Það er rangt,“ segir Jökull. „Við réðum í sumar nokkra sumarafleysingastarfsmenn frá Eystrasaltslöndunum en þeir eru allir farnir og það var tímabundin ráðning. Það flokkast venjulega ekki undir starfsmannaveltu þegar fólk er ráðið í sumarafleysingar.

Í samtali við mbl.is í morgun sagði Aðalsteinn að hann hefði viljað sjá hlutina hjá kísilverinu þróast öðruvísi. Samband Framsýnar við yfirmenn fyrirtækisins væri stirt og það væri ekki þeim að kenna.

„Ég veit ekkert hvað hann hefur fyrir sér í því. Við erum alltaf að hitta hann og höfum veitt honum þær upplýsingar sem hann þarf,“ segir Jökull þegar þetta er borið undir hann.

Gerður var bráðabirgðakjara­samn­ing­ur sem renn­ur út um ára­mót og Fram­sýn fund­ar með starfs­mönn­um í næstu viku þar sem farið verður yfir stöðuna. Jökull segir að vinna við nýjan samning ætti að hefjast í mánuðinum.

Við erum hluti af Samtökum atvinnulífsins og SA hefur umboðið fyrir okkur gagnvart verkalýðshreyfingunni. Þetta fer þeirra á milli til að byrja með og svo tökum við þátt í samningunum þegar ferlið er hafið.

Kís­il­verk­smiðja PCC Bakka á Húsa­vík.
Kís­il­verk­smiðja PCC Bakka á Húsa­vík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is