Í hvað fóru allar milljónirnar?

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir við húsin þrjú á Nauthólsvegi 100 …
Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir við húsin þrjú á Nauthólsvegi 100 var 146-158 milljónir. Framkvæmdirnar hingað til hafa hins vegar kostað 415 milljónir. mbl.is/Hari

Framkvæmdir við húsin þrjú við Nauthólsveg 100 sem samanstanda af bragga, náðhúsi og skemmu hafa vakið athygli síðustu vikur vegna hundraða millj­óna króna framúr­keyrslu í fram­kvæmd­um á húsunum á veg­um borg­ar­inn­ar.

Nú stendur yfir óháð rannsókn á innri endurskoðun Reykjavíkurborgar á framkvæmdunum og í gær var samþykkt í borgarráði að útvíkka rannsóknina í því skyni að gera heild­ar­út­tekt á öllu því ferli sem end­ur­gerð bragg­ans. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, sagði í samtali við mbl.is í gær, eftir vettvangsferð borgarstjórnarflokksins um braggann, að flokkurinn vilji tryggja að málið verði upplýst að fullu og að komið verði í veg fyrir alla yfirhylmingu.

Úr bragga, skemmu og náðhúsi í matsölustað, frumkvöðlasetur og fyrirlestrasal 

Í frumkostnaðaráætlun sem gerð var af verkfræðistofunni Eflu í júlí 2015 kemur fram að endurbætur á bragga og svokölluðu náðhúsi ættu að kosta um 250 til 330 þúsund krónur á fermetra eða 34 til 39 milljónir króna. Þá var lagt til að viðbyggingin, eða skemman, yrði rifin vegna slæms ástands og gert var ráð fyrir að það myndi kosta 34 til 36 milljónir króna. Áætlaður heildarkostnaður til verkefnisins var því 146 til 158 milljónir króna.

Þremur árum seinna hefur kostnaðaráætlunin farið gríðarlega fram úr upphaflegri áætlun og hafa fram­kvæmd­irn­ar við bragg­ann kostað um 415 millj­ón­ir. Þá skal tekið fram að verki við náðhúsið er langt frá því að vera lokið. Mat­sölustaður hef­ur opnað í bragg­an­um og skemman verður brátt tekin í notk­un sem félagsaðstaða og nýsköpunarsetur. Til stendur að fyrirlestrarsalur fyrir nemendur í Háskólanum í Reykjavík opni í náðhúsinu. 

Frá vettvangsferð Pírata í braggann í gær, sem fór að …
Frá vettvangsferð Pírata í braggann í gær, sem fór að mestu leyti fram í svokölluðu náðhúsi. mbl.is/Hari

Kostnaður við smíðavinnu yfir 100 milljónir

Það liggur beinast við að skoða nánar í hvað rúmu 400 milljónirnar hafa farið. Höfundarréttarvarin strá hafa vakið mikla athygli, sem og hönnunarljósakrónur frá Danmörku sem greint var frá í Fréttablaðinu í morgun, en hvor um sig kostuðu tæpa milljón króna. 

Hér verður hins vegar farið nánar út í heildarkostnaðinn sem hefur fylgt framkvæmdunum við Braggann í Nauthólsvík. Sundurliðun yfir kostnaðinn má finna í umsögn full­trúa Skrif­stofu Eigna- og at­vinnuþró­un­ar við fyrirspurnum fulltrúa minnihlutans í borgarráði vegna yfirlits yfir framkvæmdir við braggann. 

Ef tekinn er saman kostnaður við framkvæmdir á byggingunum þremur sést að kostnaður við að rífa viðbygginguna var tæpar 30 milljónir.

Mestur kostnaður fór í smíðavinnu, eða um 125 milljónir. Þar af eru tæpar 106 milljónir sem verktakafyrirtækið Smiðurinn þinn lfs fékk greitt frá borginni, sem er mesti útlagði kostnaður til eins aðila. Eigandi fyrirtækisins, Sigfús Örn Sigurðsson, sagði í samtali við Eyjuna að upplýsingarnar sem borgin sendi frá sér séu ekki réttar þar sem ekki var tekið mið af efniskostnaði. Segir hann að 67 milljónir hafi farið í vinnu og 38 milljónir í efniskostnað.

Höfundarréttarvarin strá, innflutt frá Danmörku, fyrir tæplega 800.000 krónur.
Höfundarréttarvarin strá, innflutt frá Danmörku, fyrir tæplega 800.000 krónur. mbl.is/Hari

Efni og vinna við barborð fyrir 3,5 milljónir

Kostnaður við múrverk er 36,4 milljónir, stálbogar sem notaðir voru við uppbyggingu braggans kostuðu tæpar 6 milljónir og þá voru 8,5 milljónir greiddar í málningarvinnu.

Stálgluggar í braggann kostuðu 4,5 milljónir og barborð um eina milljón. Kostnaður við að smíða barborðið var um 2,5 milljón. Þá var kostnaður við innréttingar, hurðir og borðplötu rúmar 4 milljónir.

Þegar kemur að ýmis konar frágangi má telja til vinnu við loftræstingu sem var um 15 milljónir, 16 milljónir í pípulagnir og rúmlega 35 milljónir í raflagnir.

23 milljónir í framkvæmdir við lóð braggans

Jarðvinna við braggann og lóð hans kostaði um 8 milljónir. Hönnun lóðarinnar kostaði rúmlega 5 milljónir, en þar inn í eru stráin margumtöluðu. Kostnaður við frágang lóðarinnar var rúmlega 20 milljónir.

Arkibúllan ehf. Fékk rúmar 28 milljónir greiddar fyrir arkitektarvinnu en fyrirtækið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að Arkibúllan hafi hannað end­ur­bygg­ingu á Naut­hóls­vegi 100 í sam­ræmi við ósk­ir verk­kaupa og eft­ir­lit arki­tekta­stof­unn­ar fólst í því að fylgj­ast með því að iðnaðar­menn fylgdu teikn­ing­um og verk­in væru sann­an­lega unn­in.

Þá má nefna að kostnaður við ástandsmat, sem framkvæmt var af verkfræðistofunni Eflu, var rúmar 28 milljónir. Þá fengu Orkuveita Reykjavíkur og Orka náttúrunnar samtals greiddar 2,7 milljónir og rúmar 800 þúsund krónur voru greiddar til borgarinnar fyrir byggingaleyfi. Þá var miðlægur stjórnsýslukostnaður samtals rúmar 12 milljónir.

Lóðavinna við Braggann kostaði um 23 milljónir.
Lóðavinna við Braggann kostaði um 23 milljónir. mbl.is/Hari

Allt frá 4.700 krónum til 105 milljóna

Samkvæmt sundurliðun kostnaðar eru taldar til 403.992.836 krónur við framkvæmdirnar á húsunum þremur. Hæsta upphæð sundurliðunarinnar eru 105,5 milljónir sem greiddar voru Smiðnum þínum ehf. og lægsta upphæðin er 4.700 krónur sem greiddar voru vegna flutnings.

Kostnaðurinn hefur því farið 245 milljónir fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun. Heildarstærð húsanna þriggja; braggans, náðhússins og skemmunnar, er 450 fermetrar. Upphaflega var gert ráð fyrir að framkvæmdirnar myndu kosta um 250 til 330 þúsund krónur á fermetra en miðað við stöðuna í dag er kostnaður við hvern fermetra 898 þúsund krónur.

Hér má sjá útsýnið úr skemmunni, einum af þremur byggingum …
Hér má sjá útsýnið úr skemmunni, einum af þremur byggingum braggans í Nauthólsvík. mbl.is/Hari

Allar framkvæmdir við braggann hafa verið stöðvaðar, en mikil vinna er eftir í viðbyggingunni, þar sem til stendur að opna frumkvöðlasetur. Ekki er víst hvenær óháðri rannsókn innri endurskoðunar borgarinnar lýkur, en borgarfulltrúar meirihlutans hafa lagt áherslu á að rannsóknin verði unnin eins hratt og örugglega og hægt er.

Á sama tíma hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins lagt fram bókun í borgarráði að innri endurskoðun borgarinnar sé óhæf til verksins vegna ákveðinna tengsla og vegna upp­lýs­inga sem hún hefði haft all­an þann tíma sem end­ur­bygg­ing bragg­ans fór fram. Fyr­ir vikið yrði varla hægt að telja niður­stöður henn­ar áreiðan­leg­ar. Þá hefur Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagt tillögu meirihlutans um útvíkkun á óháðri rannsókn innri endurskoðunar vera „aumt yfirklór.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert