Máttur #MeToo að gripið var til aðgerða

Líkt og fram hefur komið voru upp­sagn­ir tveggja stjórn­enda hjá …
Líkt og fram hefur komið voru upp­sagn­ir tveggja stjórn­enda hjá Orku nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fyr­ir­tæki OR, metn­ar rétt­mæt­ar í skýrslunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Skýrslan er góð og ég fagna sérstaklega vinnustaðarmenningarúttektinni sem Félagsvísindastofnun lét gera,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og fulltrúar innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar kynntu niðurstöður skýrslu innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um vinnustaðarmenn­ingu og mannauðsmál hjá Orkuveitu Reykjavíkur á fundi borgarráðs í morgun.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er sömuleiðis sáttur við úttektina. „Við höfum öll verið ánægð að sjá hvað stjórn Orkuveitunnar hefur tekið fast á þessu. Úttektin er mjög ítarleg og stór hópur sérfræðinga hefur verið kallaður til,“ segir hann í samtali við mbl.is 

Þórdís Lóa segir að í könnun Félagsvísindastofnunar hafi einkum tvennt komið henni á óvart. „Í fyrsta lagi hversu mikil starfsánægjan er og í öðru lagi hversu hátt hlutfall þeirra sem áður voru í starfi töldu sig hafa orðið fyrir einhvers konar einelti eða ofbeldi.“

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er starfsánægja starfsfólks mikil, eða 4,45 að meðaltali á kvarðanum 1-5. Í skýrslunni kom einnig fram að þegar spurt var um hegðun sem fellur undir skilgreiningu kynferðislegrar áreitni án þess að nefna kynferðislega áreitni hækkaði hlutfall núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem segjast hafa orðið fyrir slíkum atvikum. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innri endurskoðun fylgir úttektinni eftir

Þá segir Þórdís Lóa að á fundinum í morgun hafi verið skýrt kveðið á um að strax verði unnið að þeim úrbótum sem lagt er til í skýrslunni.

„Stjórn Orkuveitunnar gaf skýr svör um það að það verður unnið áfram í þessu máli. Innri endurskoðun kemur til með að gera eftirfylgnikönnun og úttekt á þessu öllu saman eftir ákveðinn tíma til þess að við fullvissum okkur um það að það verði gengið í þessar úrbætur sem innri endurskoðun kemur með en svo hefur stjórnin einnig haft frumkvæði að því að taka ákveðin mál, sérstaklega sem snúa að vinnustaðarmenningu, áfram.“   

Líkt og fram hefur komið voru upp­sagn­ir tveggja stjórn­enda hjá Orku nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fyr­ir­tæki OR, metn­ar rétt­mæt­ar í skýrslunni. Greint var frá því í fyrra­dag að Áslaugu Thelmu Ein­ars­dótt­ur, fyrr­ver­andi for­stöðumanni hjá Orku nátt­úr­unn­ar, var sagt upp vegna frammistöðuvanda.

Áslaug Thelma hefur ítrekað haldið því fram að uppsögn hennar tengist kvörtunum hennar und­an hegðun Bjarna Más Júlí­us­son­ar, þáver­andi fram­kvæmda­stjóra ON. Hann var rek­inn skömmu eft­ir að Áslaugu Thelmu var sagt upp vegna óviðeig­andi fram­komu sem tengd­ist meðal ann­ars tölvu­póst­um sem hann sendi til kven­kyns und­ir­manna sinna.

Áhif #Metoo sýnileg

Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu, vísaði meðal annars í #Metoo-byltinguna þegar málið kom fyrst upp og spurði hvort byltingin hefði ekki örugglega átt sér stað. Þórdís Lóa segir að máttur #Metoo birtist í því að málið var strax tekið alvarlega og fór inn á borð stjórnar Orkuveitunnar.

„Það er farið í aðgerðir, það finnst mér vera máttur #Metoo í þessu öllu og ég er mjög ánægð með það. Ég spyr mig, ef að þetta hefði gerst fyrir tíu árum síðan, hefði þetta orðið það mál sem þetta er orðið í dag? Hefðum við tekið þetta svona alvarlega? Hefði stjórnin tekið þetta svona alvarlega? Ég held ekki. Ég held að við séum sem betur fer á einhverri vegferð þó að hún sé oft erfið.“

Þá segir hún mikilvægt að umræðunni verði áfram mætt af auðmýkt. „Við vitum að Orkuveitan stóð sig vel og við vitum líka að þarna voru ákveðin mál sem voru ekki eins og best er á kosið og það þarf að laga það og skapa jafnvægi í menninguna.“  

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfandi forstjóri skilar tillögum til stjórnar eftir helgi

Næstu skref í málinu eru þau að Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri OR, mun á mánudag skila tillögum til stjórnar Orkuveitunnar um næstu skref og hvernig verði unnið með ábendingarnar í skýrslunni og brugðist við þeim. 

„Það er gott að heyra að það er í undirbúningi því það er það sem máli skiptir, að fylgja þessu eftir,“ segir Dagur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert