„Þetta kemur mér í opna skjöldu“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að umfjöllun um braggamálið muni …
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að umfjöllun um braggamálið muni halda áfram óháð starfi þriggja manna hóps, sem hún hefur vikið úr, sem átti að rýna í niður­stöður skýrslu innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um braggann í Nauthólsvík. mbl.is/Eggert

„Mér finnst málinu algjörlega óviðkomandi hver stjórnskipuleg staða þessa hóps sé,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði í gær að ákvörðun Hildar að segja sig úr þriggja manna hópi sem á að rýna í niður­stöður innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um bragga­málið ekki hafa áhrif á þá vinnu sem fram und­an er þar sem aldrei hafi verið um skil­greind­an hóp eða nefnd að ræða.

Hildur segir að niðurstöður skýrslunnar skipti höfuðmáli í þeirri vinnu sem fram undan er. „Þar sem að skýrslan dregur borgarstjóra til ábyrgðar þá er óheppilegt að hann skuli taka þátt í þeirri vinnu. Það rýrir traust og trúverðugleika og hefur vakið sterk viðbrögð. Mér finnst það næg ástæða algjörlega óháð því hvort að þetta sé hópur eða nefnd eða teymi eða saumaklúbbur, það skiptir ekki máli. Það er ekki gott að hann taki þátt í þessari vinnu,“ segir hún.

Vissi ekki af vinnunni sem fór fram milli jóla og nýárs

Þórdís Lóa sagði jafnfram í samtali við mbl.is að ákveðin vinna hafi farið af stað að loknum borgarráðsfundi 20. desember þar sem skýrsla innri endurskoðunar var kynnt og að frumdrög að því sem hópurinn vill draga út úr skýrslunni verði kynnt á fundi borgarráðs á morgun. Hildur kannast ekki við að þessi vinna hafi verið unnin.

„Það er talað eins og þessi hópur hafi verið að störfum milli jóla og nýárs. Ég var allavega aldrei boðuð í neina vinnu og var formlega partur af þessum hópi á þessum tíma þannig þetta kemur mér í opna skjöldu.“

Burtséð frá hópnum mun umfjöllun um braggamálið halda áfram, það er Hildur sannfærð um. „Málið mun áfram vera á borði borgarráðs og borgarstjórnar þannig við í minnihlutanum munum hafa aðkomu að því það. Það hefði verið betra ef þetta hefði verið hlutlaust teymi eða þá hópur með einum úr minnihluta, einum úr meirihluta og svo einhverjum utanaðkomandi. Þetta á ekki að vera vinna sem þarfnast pólitísks meirihluta, nema þá ef fólk ætli sér að sópa einhverju undir teppið.“

Innri endurskoðandi situr fund borgarráðs

Innri endurskoðandi Reykjavíkur mun svara spurningum fundarmanna á fundi borgarráðs á morgun og segir Hildur að það verði gott að fá svör við ýmsu og nefnir sem dæmi ábyrgð borgarstjóra og og ábyrgð Hrólfs Jónssonar, fyrrum skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

Hildur vonast einnig eftir ráðleggingum frá innri endurskoðun um hvernig málinu skuli fram haldið. „Það verður ágætt að fá hans sjónarmið inn í umræðuna um það. „Ég vil að við förum gaumgæfilega ofan í saumana á hverri einustu ábendingu og gætum þess að gera þær breytingar í stjórnsýslunni sem við þurfum til að málið geti ekki endurtekið sig.“

mbl.is