Persónuafsláttur frystur í þrjú ár

Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar um skattkerfisbreytingar, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti …
Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar um skattkerfisbreytingar, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í gær, mun persónuafsláttur vera frystur í þrjú ár. mbl.is/​Hari

Til stendur að frysta persónuafsláttinn í þrjú ár þar til innleitt verður nýtt kerfi til þess að reikna út hver afslátturinn eigi að vera, samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar um skattkerfisbreytingar vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.

Þetta staðfesti fjármálaráðuneytið þegar mbl.is leitaði viðbragða við orðum forseta Alþýðusambandsins, Drífu Snædal, um að erfiðlega gengi að fá útreikninga skattbreytinganna til þess að ganga upp, nema það standi til að frysta persónuafsláttinn.

„Tillagan gengur út á það,“ svarar Páll Ásgeir Guðmundsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, spurður hvort rétt sé að til standi að frysta persónuafsláttinn. „Hann verður frystur á meðan verið er að innleiða nýtt kerfi, í þrjú ár. Skattleysismörkum verður haldið óbreyttum.“

Að loknum þremur árum á að vera búið að klára innleiðingu kerfisins. Þá á að taka við ný viðmiðun við ákvörðun persónuafsláttar og þrepamarka skattkerfisins. Í stað þess að miðað verði við vísitölu neysluverðs eins og nú er, mun verða tekið tillið til bæði vísitölu neysluverðs og framleiðniaukningar, útskýrir Páll Ásgeir.

„Sú aðgerð er hugsuð til þess að stöðva í raun skattskrið sem hefur verið krafa verkalýðshreyfingarinnar og með þessu er brugðist við því,“ segir hann og vísar til þess að þessi nýi mælikvarði sé til þess fallinn að gefa til kynna hvert raunverulegt svigrúm sé til launahækkana í samfélaginu.

„Þessi frysting persónuafsláttar þar til innleitt er nýtt kerfi, er gerð til þess að við getum verið með ríflegri lækkun á þessu nýja þrepi. Þannig að nýja þrepið nái merkjanlegri lækkun upp á fjögur prósentustig,“ segir Páll Ásgeir.

mbl.is