„Við veðjum á vaxtalækkun“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir kjarasamningana afrek og vísar því …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir kjarasamningana afrek og vísar því á bug að fyrirvari um lægri vexti skerði sjálfstæði Seðlabankans. mbl.is/Eggert

Drífa Snædal, forseti ASÍ, vísar því á bug að endurskoðunarákvæði kjarasamninga um vaxtastig skerði aðgerðafrelsi Seðlabanka Íslands. „Við erum að veðja á vaxtalækkun í gegnum þessa kjarasamninga og erum að gefa Seðlabankanum tækifæri til vaxtalækkana með þessum samningum,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Þessir samningar eru afrek. Í fyrsta lagi afrek að þetta hafi tekist og síðan afrek að svona mikið hafi náðst í þeim, þar skiptir náttúrulega aðkoma stjórnvalda höfuðmáli við að lenda þessu. Þetta var mikið púsl, en það tókst að raða mörgum bitum í þetta að lokum,“ segir Drífa.

Forsendubrestur kalli á endurmat

Ákvæði í kjarasamningunum um Seðlabankann, þar sem það er sagt for­sendu­ákvæði að upp­sögn samningsins komi til verði vaxta­lækk­an­ir ekki að veru­leika, hefur vakið töluverða athygli. 

„Við ræddum mjög mikið um sjálfstæði Seðlabankans og að við værum ekki að fara að skerða sjálfstæði bankans, enda ekkert skrifað inn í samningana um að lækki ekki vextir gerist eitthvað ákveðið,“ útskýrir Drífa.

Spurð hvort það myndi setja samningana í uppnám ef forsendur tengdar vaxtastiginu standast ekki, svarar forseti ASÍ: „Við veðjum á vaxtalækkun og þá verðum við að meta aðra þætti ef svo verður ekki, það er bara þannig.“

Spurð hvort svar hennar merki að aðilar muni þurfa að setjast að samningaborðinu á ný og endurmeta stöðuna ef þessar forsendur bresta, segir Drífa „það alltaf [vera] inni í kortunum.“

Stytting vinnuviku flókið

Útfærsla styttingu vinnuvikunnar í 36 stundir er samkvæmt kjarasamningnum í höndum hvers vinnustaðar og getur þess vegna verið flókin og valdið misskilningi, segir Drífa og bendir á að til séu fleiri tillögur að útfærslu hvað þetta varðar.

„Þetta er líka til þess að auka vinnustaðalýðræði, þannig að vinnustaðirnir þurfa að taka ábyrgð á þessu,“ útskýrir hún.

Skrifað var undir kjarasamninga á ellefta tímanum í gærkvöldi.
Skrifað var undir kjarasamninga á ellefta tímanum í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Grunnur að frekari vinnu

„Auðvitað á eftir að vinna úr þessum pakka stjórnvalda og margt í þessu verður náttúrulega útfært nánar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, en þarna eru komin loforð, en sumt er þó mislangt komið,“ segir Drífa um tillögur ríkisstjórnarinnar til lausnar vinnudeilunnar.

Þá eigi enn þá eftir að vinna að úrlausn og framkvæmd þeirra hugmynda sem hafa verið lagðar fram.

„Þetta byggir á trausti og áframhaldandi vinnu,“ segir Drífa og bætir við að ýmislegt sé komið á hreint hvað varðar lengingu fæðingarorlofs, skattalækkanir og fleira. „Svo er ýmislegt sem þarf að vinna betur.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti aðgerðir stjórnvalda …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti aðgerðir stjórnvalda sem voru til þess gerðar að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert