Brugðust seint við tilmælum frá MAST

Frá framleiðsluferlinu í verksmiðju Ópals.
Frá framleiðsluferlinu í verksmiðju Ópals. mbl.is/Hari

Ópal sjávarfang ehf. fékk upplýsingar frá Matvælastofnun (MAST) um staðfest listeríusmit í þremur afurðum fyrirtækisins um hádegisbil 4. febrúar, en brást ekki við með því að innkalla vörurnar fyrr en síðdegis 6. febrúar. Þá var einungis ein vara af þremur innkölluð.

Birgir Sævar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ópals sjávarfangs, segist í samtali við mbl.is ekkert kannast við að hafa fengið tölvupósta um staðfest smit og leiðbeiningar MAST vegna þeirra 4. febrúar, þrátt fyrir að hafa þó svarað tölvupóstunum með ítarlegum hætti þennan sama dag.

mbl.is hefur fengið afrit af samskiptum Birgis við MAST dagana 4. og 5. febrúar, en í dag var greint frá því á Vísi að í skoðunarskýrslu MAST frá 12. febrúar kæmi fram að fyrirtækið hefði látið rúma tvo sólarhringa líða frá því að tilkynning barst frá um að vörur þess, sem enn væru á markaði, væru sýktar af listeríu. Þetta er rétt, eins og má lesa á skjáskoti úr skoðunarskýrslu MAST hér að neðan.

Úr skoðunarskýrslu MAST sem dagsett er 12. febrúar.

Sýkingin getur verið lífshættuleg

Listeríusýking getur verið lífshættuleg ákveðnum hópum, en greint var frá því í Farsóttafréttum landlæknis fyrr í vikunni að kona á fimmtugsaldri hefði látist sökum listeríusýkingar í janúar, en hún var með undirliggjandi ónæmisbælingu og hafði borðað bæði grafinn og reyktan lax um jólin.

Ráðist var í sýnatöku hjá Ópal sjávarfangi í janúar eftir að ábending barst frá embætti landlæknis um að listería hefði greinst í blóði sjúklings, sem meðal annars hafði borðað vörur frá fyrirtækinu.

Tilmæli veitt strax í hádeginu 4. febrúar

„Ljóst er að stöðva þarf dreifingu, taka þarf af markaði og innkalla afurðir,“ segir í tölvupósti frá starfsmanni MAST til Birgis sem sendur var kl. 12:09 þann 4. febrúar.  „Matvælastofnun lítur á málið alvarlegum augum. Líkur eru á að afurðir sem framleiddar eru í lok desember og janúar og eru enn á markaði standist ekki þau viðmið sem sett hafa verið,“ segir í sama pósti.

Fyrirtækið brást þó eins og áður segir ekki við með innköllun fyrr en síðdegis 6. febrúar og innkallaði þá einungis graflaxinn, en bar að innkalla reykta laxinn og fjallableikjuna einnig, að mati MAST.

Í öðrum pósti frá MAST, sem sendur var 4. febrúar kl. 13:12 fylgdu niðurstöður vegna mælinga á afurðasýnum. „Málið er alvarlegt og krefst tafarlausra viðbragða,“ sagði starfsmaður MAST þá við Birgi.

Setti út á eftirlitsaðferðir MAST

Birgir svaraði póstum frá MAST ítrekað 4. febrúar og setti meðal annars út á eftirlit stofnunarinnar. Í pósti sem hann sendi starfsmanni MAST kl. 14:32 sagðist hann vilja árétta að fyrirtækið hefði „sett út á allt þetta ferli, bæði samráðsleysið og sýnatökuaðferðir sem að notaðar voru“.

Hann sagði fyrirtækið einnig ekki hafa haft neinar grunsemdir „um að neitt væri að, fyrr en að þessar niðurstöður komu í dag“.

Starfsmaður MAST ítrekaði svo fyrir Birgi kl. 15:13 að „miklar líkur“ væru á því að graflax og reyktur lax frá fyrirtækinu sem framleiddur var í desember og janúar og væri enn á markaði, væri mengaður af listeríu.

Birgir Sævar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ópals sjávarfangs.
Birgir Sævar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ópals sjávarfangs. mbl.is/Hari

„Það er því áríðandi að grípa til aðgerða strax.  Stöðva dreifingu, taka vörur af markaði og innkalla frá neytendum,“ bætti starfsmaður MAST við og Birgir var einnig spurður að því hvort fyrirtækið væri ekki með upplýsingar um verklag við innköllun.

Birgir svaraði þessum pósti kl. 15:43 og setti þá aftur út á starfshætti MAST. „Ég er að ljúka minni greiningu á niðurstöðum úr afurðum.  Þetta er ekki svona einfalt eins og þú lýsir í skeytingu þínu hér að neðan, eins og þú munt komast að þegar þú hefur fengið afrakstur minn í hendur.  Misstök [sic] hafa átt sér stað í þessu hraða ferli sem að boðið var uppá,“ skrifaði Birgir.

Hann bætti því við að fyrirtækið ætti skriflegt verklag um innköllun, en var þó ósammála því að það ætti að innkalla vörurnar. Hann sagði að ef að sýnt væri fram á að afurðirnar gætu ekki verið neytendum að neinum skaða væri innköllunin „tilgangslaus og kostnaðarsöm aðgerð sem að skilar engu“. Birgir bað einnig um „smátíma og rými“ til að átta sig á umfangi málsins.

Í pósti sem hann sendir á starfsmann MAST kl. 17:30 segir hann einnig að hann hafi skrifað rangar dagsetningar á öll sýnin sem MAST tók. Það útskýrði hann með því að við sýnatökuna hefði „ríkt ráðaleysi“ og að allir hafi verið „stressaðir við þessar einkennilegu kringumstæður“.

Matvælastofnun sendi fyrirtækinu svo tilkynningu um boðaða stöðvun dreifingar og framleiðslu á graflaxi, reyktum laxi og fjallableikju, 5. febrúar kl. 18:26.

„Fráleitt að láta tvo daga líða“

Ópal sjávarfang sendi frá sér fréttatilkynningu síðdegis í dag þar sem fram kom að fyrirtækið hefði brugðist við með innköllun „um leið“ og MAST hefði komið upplýsingum um staðfest smit áleiðis til fyrirtækisins. Fyrirtækið innkallaði graflaxinn fyrst 6. febrúar og svo allar reyktar afurðir fyrirtækisins 14. febrúar.

„Það er bara alveg fráleitt að láta tvo daga líða frá því að vandamálið er þekkt og þar til brugðist er við,“ sagði Birgir í samtali við mbl.is fyrr í kvöld, áður en blaðamaður hafði fengið afrit af samskiptum hans við MAST, en leitað var eftir þeim hjá stofnuninni þar sem augljóst misræmi var í frásögn Birgis og skoðunarskýrslum MAST sem mbl.is fékk afhentar.

Þrátt fyrir að tölvupóstar með tilmælum frá MAST og niðurstöðum rannsókna dagsettir 4. febrúar hefðu verið bornir undir hann, neitaði hann að kannast við að hafa móttekið þá.

Fréttatilkynninguna frá Ópal sjávarfangi má lesa í heild sinni hér að neðan, en hafa ber í huga að þar er ekki rétt farið með, er fullyrt er að fyrirtækið hafi innkallað graflaxinn um leið og niðurstöður sýna úr ræktun lágu fyrir.

Vegna fréttaflutnings undanfarna daga um listeríu hjá Ópal sjávarfangi er mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri:

Í febrúar síðastliðnum vaknaði grunur um listeríusmit í afurð frá Ópal sjávarfangi. Í kjölfarið voru þá þrettán sýni tekin og rannsökuð og fannst listería, sem getur verið skaðleg, í fjórum þeirra. Um leið og niðurstöður úr ræktun sýna lágu fyrir innkallaði Ópal sjávarfang graflaxinn úr öllum verslunum og unnið var með MAST á öllum stigum málsins eftir því verklagi sem að stofnunin uppáleggur. Eftir frekari umhugsun ákvað fyrirtækið að innkalla allar vörur fyrirtækisins sem var langt umfram það sem ætlast var til á þeim tímapunkti. Sú ákvörðun var stór fyrir ekki stærra fyrirtæki en ákvörðun stjórnenda var að taka af allan vafa strax frá upphafi og tryggja hag almennings umfram allt annað.

 Jafnframt var framleiðslustöð fyrirtækisins lokað meðan gerðar voru ráðstafanir til að útiloka frekari smithættu. Starfsmenn Ópal Sjávarfangs fylgdu innköllun enn frekar eftir með því að hringja í allar verslanir til að tryggja að vörur hefðu verið teknar úr sölu. Eftir að framleiðsla hófst á ný voru sýni tekin og send á rannsóknarstofu til rannsóknar og komu þau hrein til baka. Eftir að þær niðurstöður höfðu verið kynntar MAST, hófst dreifing á vörum fyrirtækisins að nýju. Síðan þá hefur MAST sinnt hefðbundnu eftirliti hjá fyrirtækinu og fengið niðurstöður örverumælinga samkvæmt vinnureglum sínum án þess að listerusmit hafi mælst.

Ópal sjávarfang er í A flokki hjá MAST sem er hæðsti gæðastuðull sem fyrirtæki í matvælaframleiðslu getur fengið. Til að fá þann stimpil þarf að gæta ítrasta hreinlætis við framleiðslu sem hefur ávallt verið í forgangi hjá Ópal Sjávarfangi. Hér er unnið eftir ströngum verklagsreglum er lúta að gæðamálum og heilbrigði afurða. Fyrirtækið er leiðandi í framleiðslu, á reyktum og gröfnum fiski. Félagið byggir á áratuga reynslu og fjölda ánægðra viðskiptavina bæði hérlendis og á erlendum mörkuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert