„Hann gaf okkur samfellda lýsingu“

„Hann viðurkennir ekki að hafa gerst sekur um manndráp af …
„Hann viðurkennir ekki að hafa gerst sekur um manndráp af ásetningi,“ segir Torstein Pettersen, deildarstjóri rannsóknardeildar Finnmerkurumdæmis norsku lögreglunnar og stjórnandi rannsóknar Mehamn-málsins. Ljósmynd/Ole-Tommy Pedersen/Finnmarken

„Jafnvel þótt við höfum nú komið okkur upp nokkuð skýrri mynd af atburðarásinni er enn mörgum spurningum ósvarað.“ Þetta segir Torstein Pettersen, deildarstjóri rannsóknardeildar Finnmerkurumdæmis norsku lögreglunnar, í samtali við mbl.is í kvöld, en Pettersen fer með stjórn rannsóknar hins hörmulega mannvígs í bænum Mehamn þar sem Gísli Þór Þórarinsson týndi lífi sínu um helgina og varð öllu samfélagi Íslendinga þar harmdauði.

„Hann gaf okkur samfellda lýsingu. Nú bíðum við eftir lokaskýrslu tæknirannsókna hvað vettvang, vopn og hinn látna snertir. Hann hefur greint okkur frá sínum hluta í því sem gerðist,“ segir Pettersen og bætir því við að grunaði í málinu, Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem nú situr við annan mann í gæsluvarðhaldi, játi ekki sekt í málinu.

Þetta táknar þó ekki að Gunnar segist saklaus af því að hafa skotið hálfbróður sinn, það hefur hann þegar játað. „Hann viðurkennir ekki að hafa gerst sekur um manndráp af ásetningi [n. forsettlig drap],“ útskýrir Pettersen og virðist liggja í orðum hans að Gunnar vonist til þess að Anja Mikkelsen Indbjør saksóknari ákæri fyrir manndráp af gáleysi, en eins og fram kom í viðtali við Vidar Zahl Arntzen, verjanda Gunnars, hér á mbl.is í gær, kveðst Gunnar ekki hafa haldið að heimili Gísla til að ráða hann af dögum, heldur til að lesa honum pistilinn.

Gott samstarf við Ísland

„Okkur hefur miðað vel áleiðis með rannsóknina og höfum komið miklu í verk á stuttum tíma. Við erum að öðlast yfirsýn yfir atburðina. Þó er það töluverð áskorun að þeir sem í hlut eiga koma frá öðru landi og tala annað tungumál. Okkur vill það til happs að samstarf norrænu landanna er mjög öflugt og þar er Ísland engin undantekning þegar rannsókn sakamála á í hlut,“ segir Pettersen. „Allar tæknilegar vísbendingar [n. tekniske spor] eru mikilvægar í málum af þessum alvarleika til þess að skýra fyrir okkur atburðarásina og hverjir hlut eigi að máli og þetta mál er þar engin undantekning.“

Pettersen hefur sjálfur marga fjöruna sopið við rannsóknir mannvíga og gat sér nokkurn orðstír í hinum svokölluðu Kirkenes-drápum sumarið 2016, þegar tæplega sextugur maður greip það skelfilega örþrifaráð að skjóta 37 ára gamla taílenska eiginkonu sína til bana með haglabyssu ásamt 12 ára syni hennar í því sem við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi var lýst sem hreinni aftöku.

Eru manndrápsmál þá tíð í Finnmörku? „Nei, sem betur fer er það ekki svo, borið saman við önnur svæði, en þetta kemur því miður upp hér annað slagið og nú hefur það gerst með skömmu millibili,“ segir Pettersen og nefnir þar Kirkenes-drápin máli sínu til stuðnings.

Aldrei haft neikvæða upplifun af Íslendingum

„Ég hef enga yfirsýn yfir hlutdeild Íslendinga í afbrotamálum hér [í Finnmörku], sjálfur hef ég aldrei haft neina neikvæða upplifun af Íslendingum, því er einmitt þveröfugt farið,“ segir Pettersen við spurningu um hvort Íslendingar hafi áður orðið uppvísir að alvarlegum brotum þar í fylkinu.

Hefur hann þá sjálfur setið yfirheyrslur Gunnars og getur hann staðfest þá lýsingu Arntzen verjanda frá í gær að grunaði sé „í rúst“? „Nei, ég var ekki viðstaddur og get ekkert tjáð mig um ástand hans, en auðvitað má gera sér í hugarlund að honum sé þungt.“

„Það er útilokað að spá nokkru um það núna hvenær ákæran verður tilbúin,“ segir Pettersen að lokum. Ekki er óalgengt að upp undir ár líði í alvarlegum norskum sakamálum þar til ákært er og má sem dæmi nefna mál hjónanna Svein og Janne Jemtland sem mbl.is fjallaði ítarlega um í fyrra. Rekstur þess náði yfir allt árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert