Hvaldimir líklega ekki til Íslands

Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, segir í samtali við mbl.is að ekki sé líklegt að rússneski njósnamjaldurinn verði fluttur til Eyja. Á fimmtudag hafði Washington Post eftir Jørgen Ree Wiig, hjá norsku hafrannsóknarstofnuninni, að skoðað yrði hvort hægt yrði að flytja hvalinn í athvarf í Eyjum.

„Það hefur ekki verið haft samband við okkur, en við höfum rætt þetta. Í rauninni er bara þetta mál með að koma [mjöldrunum Litlu-Grá  og Litlu-Hvít] frá Sjanghæ svo stórt og mikilvægt að það klárist, að það gerist ekkert annað fyrr en að það er búið. Þannig að ég held að það sé alveg útséð með það,“ segir Páll.

Þannig að það er ekki tekið á málinu með íslensku „þetta reddast“ hugarfari?

„Nei ætli það séu ekki of miklir peningar í húfi,“ svarar framkvæmdastjórinn og hlær. „Við þurfum að einbeita okkur að því að klára þetta verkefni. Þetta er svo stórt verkefni og margt sem getur klikkað.“

Hlaut nafnið Hvaldimir

Efnt var til netkosningar í Noregi um nafn fyrir njósnamjaldurinn sem fannst við strendur Finnmerkur í Norður-Noregi. Greiddu yfir 25 þúsund manns atkvæði og hlaut nafnið Hvaldimir 31% greiddra atkvæða, að því er fram kemur á vef norska ríkissjónvarpsins NRK.

Þá hlaut nafnið Joar 17% atkvæða en það er í höfuðið að á sjómanninum sem fann Hvaldimir.

Óvíst með komu hinna mjaldrana

Spurður hvenær megi búast við að mjaldrarnir tveir, Litla-Grá og Litla-Hvít, séu væntanlegir í athvarfið í Klettsvík í Vestmannaeyjum, svarar Páll: „Þetta er góð spurning.“

„Ég er ekki búinn að fá neitt endanlegt svar ennþá. Það þarf að samræma ansi margt, það þurfa að vera fulltrúar frá MAST (Matvælastofnun) hérna á staðnum til þess að hafa auga með ýmsum þáttum. Það þarf að vera klár flugvél og áhöfn. Margt þarf að smella saman,“ útskýrir hann.

„Fyrst við náðum ekki þessari dagsetningu þá er erfitt að finna nýja, en þetta kemur allt saman,“ segir Páll og bætir við að hugsanlega gæti koma mjaldrana frestast fram í júní. Hann tekur þó fram að hann hafi ekki nokkra staðfestingu þess efnis.

mbl.is