MDE úrskurðar í Al-Thani-málinu

Úrskurðað verður í máli fyrrverandi stjórnenda Kaupþings gegn íslenska ríkinu …
Úrskurðað verður í máli fyrrverandi stjórnenda Kaupþings gegn íslenska ríkinu á þriðjudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mannréttindadómstóll Evrópu mun á þriðjudag í næstu viku kveða upp úrskurð í máli fyrrverandi stjórnenda Kaupþings gegn íslenska ríkinu vegna málsmeðferðar í Al-Thani-málinu. Telja stjórnendurnir að þeir hafi ekki hlotið dóm af óháðum og hlutlausum dómstól þegar þeir voru sakfelldir fyrir umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum og fyrir markaðsmisnotkun.

Kaupþingsmennirnir, Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, voru sakfelldir í héraðsdómi og í Hæstarétti og telja vafa vera um hlutleysi dómara í máli þeirra þar sem eiginkona eins hæstaréttardómara hefi verið starfsmaður Fjármálaeftirlitsins á meðan Kaupþing var til rannsóknar.

Jafnframt hafi sonur sama dómara verið starfsmaður lögfræðideildar Kaupþings fyrir fall bankans og síðar starfsmaður skilanefndar vegna gjaldþrotsins.

Þá snýr kæra fjórmenninganna einnig að því að þeir telja sig ekki hafa fengið nægilegan tíma og fullnægjandi gögn til þess að undirbúa málsvörn sína. Segjast þeir ekki hafa haft  aðgengi að rannsóknargögnum, ekki hafa fengið að spyrja vitni spurninga fyrir rétti né fengið upplýsingar um umfang hlerunar símtala þeirra, en þeir telja að samtöl við lögmenn sína hafi verið hleruð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert