Beittu klippum og sverðsög á slysstað

Aðstæður á slysstað voru mjög erfiðar en andrúmsloftið var yfirvegað, …
Aðstæður á slysstað voru mjög erfiðar en andrúmsloftið var yfirvegað, að sögn Leifs Bjarka Björnssonar, slökkviliðsstjóra Rangárþings ytra. Ljósmynd/Aðsend

Aðstæður á slysstað við Múlakot í Fljótshlíð í gærkvöld, þar sem flugvél af gerðinni Piper PA-23 hrapaði með þeim afleiðingum að þrír létust, voru mjög erfiðar, að sögn Leifs Bjarka Björnssonar, slökkviliðsstjóra Rangársþings ytra. Allir um borð voru Íslendingar og voru tveir fluttir alvarlega slasaðir á Landspítalann. 

„Allir unnu sem einn maður“

„Við beittum bæði klippum og sverðsög. Það er ekki mjög þykkt í skrokkum á svona vélum og við söguðum okkur leið til þess að bæta aðgengi þarna. Það er ósköp lítið pláss sem þú hefur og engin hurð í sjálfu sér, bara gluggar. Hurðirnar voru allar undir vélinni og ekki hægt að koma neinum út þar,” segir Leifur Bjarki.

21 slökkviliðsmaður frá Brunavörnum Rangárvallasýslu kom að aðgerðum á slysstað og fjórir frá Vík. Leifur Bjarki segir að aðgerðir hafi gengið mjög vel miðað við það að slys sem þessi séu sjaldgæfir atburðir. „Við þurftum að staldra svolítið við og hugsa á meðan við vorum að vinna eins hratt og við gátum,“ segir hann en bætir við að andrúmsloftið á vettvangi hafi verið mjög yfirvegað. „Allir unnu sem einn maður. Mín upplifun af þessu sem stjórnandi á vettvangi var sú að þetta hefði ekki getað gengið betur,” segir hann.

Von á bráðabirgðaniðurstöðum eftir eina til þrjár vikur

Rann­sókn­ar­nefnd flug­slysa, auk tækni­deild­ar lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, rann­sakaði vett­vang í nótt og fram á morg­un, en vett­vangs­rann­sókn lauk í morg­un. Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugsviðs og rekstrarstjóri rannsóknarnefndar flugslysa, segir að nefndin gefi sér u.þ.b. eina til þrjár vikur til þess að frumrannsaka flugslysið. Hann segir að ekkert sé hægt að segja á þessu stigi málsins um efnishlið rannsóknarinnar.

Flakið var flutt í rann­sókn­ar­skýli rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar í Keflavík til frek­ari skoðunar. „Við munum rannsaka það og ræða við þau vitni sem mögulegt er og skoða ýmsa þætti sem tengjast þessu,” segir hann, en of snemmt er að segja til um það hvenær niðurstaða lokarannsóknar liggi fyrir um slysið við Múlakot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert