Hjón og sonur þeirra létust í slysinu

Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að þau sem …
Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að þau sem létust hafi verið mikið flugfólk.

Þau sem létust í flugslysinu í Fljótshlíð á sunnudagskvöld voru hjón og sonur þeirra. Annar sonur hjónanna og tengdadóttir liggja á spítala eftir slysið.

Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is, en Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun.

Sveinn segir aðspurður að flugmaður vélarinnar hafi verið þaulvanur flugmaður og að fjölskyldan hafi verið mikið flugfólk. Líðan þeirra tveggja sem lifðu slysið af er sögð stöðug.

Flugvélin sem hrapaði var af gerðinni Piper PA-23 og hafði flugmaður hennar verið að æfa snertilendingar á flugvellinum í Múlakoti áður en slysið varð.

Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugsviðs og rekstrarstjóri rannsóknarnefndar flugslysa, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að nefndin gæfi sér á bilinu eina til þrjár vikur í frumrannsókn slyssins, en flak vélarinnar hefur verið flutt til skoðunar í rannsóknarskýli nefndarinnar í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert