Blaðamenn fordæma meðferð Assange

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Blaðamannafélag Íslands fordæmir fyrirhugað framsal blaðamannsins Julian Assange til Bandaríkjanna, sem innanríkisráðherra Bretlands hefur veitt leyfi fyrir að tekið verði fyrir hjá breskum dómstólum. Þetta kemur fram í ályktun félagsins.

Hjálmar Jónsson.
Hjálmar Jónsson.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, er staddur í Túnis á þingi Alþjóðablaðamannasambandsins, sem og Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. Kristinn ávarpaði samkunduna nú fyrir skömmu og segir Hjálmar hann hafa hlotið mikið lof fyrir ræðu sína. Von er á sams konar ályktun frá alþjóðasambandinu á morgun.

Bandarísk stjórnvöld halda því fram að Assange sé njósnari, án þess þó að hann sé á mála hjá nokkrum manni, og niðurstöður hans séu birtar öllum almenningi. Má því spyrja sig hver munurinn er á hefðbundum rannsóknarblaðamanni og njósnara, standist sú skilgreining.

Hjálmar segist ekki trúa því að hið forna og merka lýðræðisríki Bretland láti þetta yfir sig ganga átölulaust. Málatilbúnaður bandarískra stjórnvalda sé fráleitur að öllu leyti. „Blaðamenn vinna með sínum heimildarmönnum að því að koma upplýsingum til almennings og við hljótum að vilja standa vörð um gagnsæi hins opinbera. Þar spilar fjórða valdið stórt hlutverk,“ segir Hjálmar og bendir á að lýðræði og tjáningarfrelsi séu tvær hliðar á sömu krónunni.

Málaferli í Bretlandi gætu staðið yfir í mánuði og jafnvel ár og óvíst hver staða Assange verður á meðan. „Vonandi verður hann bara látinn laus,“ segir Hjálmar en bætir þó við að hann viti ekki hvernig því verður háttað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert