Fordæma framsalskröfu

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Þingflokkur Pírata fordæmir harðlega framsalskröfu Bandaríkjanna á hendur Julian Assange. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum.

„Framganga bandarískra stjórnvalda í máli Assange er bein aðför að fjölmiðlafrelsi enda er gróflega vegið að vernd uppljóstrara sem gjaldfellir lýðræðislegt eftirlitshlutverk fjölmiðla. Blaðamenn sem fjalla um jafn brýn mál og þjóðaröryggi eru nú orðnir að skotspóni lögregluaðgerða og lögsókna.

Hafa verður í huga að fyrir tilstuðlan Julian Assange var almenningur upplýstur um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Þegar fjölmiðlafólk nýtur ekki verndar til að fjalla um viðkvæmar upplýsingar grefur það undan getu þeirra til stunda gagnrýna blaðamennsku. Herferð Bandaríkjastjórnar gegn blaðamennsku af þessari tegund mun hafa víðtæk áhrif sem munu bergmála um allt samfélagið.

Píratar vona að breskir dómstólar muni við meðferð framsalsbeiðni Assange síðar í dag láta tjáningarfrelsi og réttindi fjölmiðla vega þyngra en þöggunartilburði og hefnigirni Bandaríkjastjórnar,“ segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert