Sakar Samfylkingu um nýfrjálshyggju

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, kveðst ekki sáttur …
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, kveðst ekki sáttur við fullyrðingar um sósíalismann í þingsályktunartillögu um alþjóðasamstarf. mbl.is/Árni Sæberg

„Það vekur […] undrun að þingmenn Samfylkingarinnar skuli skrifa undir það að sósíalísk barátta tuttugustu aldarinnar hafi ekki verið annað en þjónkun við Sovétríkin og það klíkuræði sem rændi þar völdum,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, er mbl.is leitar viðbragða við þingsályktunartillögu um skipun nefndar um framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

Tillagan miðar að því að nefnd verði gert að meta hvernig styrkja megi stöðu Íslands á alþjóðavettvangi til framtíðar og að hún skili af sér skýrslu vorið 2021. Undir tillöguna rita þingmenn Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata.

Sigruðu sósíalismann í kalda stríðinu

Tilefni orða Gunnars Smára er ekki tillagan sem slík heldur efni greinargerðar hennar. Þar segir meðal annars að í kaldastríðinu hafa tekist á „vestræn ríki undir forustu Bandaríkjanna og hins vegar sósíalistaríki undir forustu Sovétríkjanna.“

Jafnframt að „hugmyndafræðin greindist í tvennt með sama hætti, þar sem annars vegar voru hugsjónir lýðræðis og frjálsra viðskipta en hins vegar hugmyndaheimur alræðis og sósíalisma“ og að „lýðræði og alþjóðavæðing hefðu einfaldlega borið sigurorð af sósíalismanum.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Berglaug Petra

Samfylkingin í skotgröfum kalda stríðsins

„Þegar Bandaríkjamenn […] eru aftur farnir að tala um sósíalisma, er undarlegt að sjá þingmenn Samfylkingarinnar djúpt ofan í skotgröfum kalda stríðsins,“ segir Gunnar Smári sem tekur þó fram að það komi honum „ekki á óvart að þingmenn Samfylkingarinnar afneiti sósíalismanum með þessum hætti“.

„Þótt sá flokkur hafi orðið til úr þeim stjórnmálaflokkum sem spruttu af sósíalískri verkalýðsbaráttu á síðustu öld, þá hefur Samfylkingin aldrei verið sósíalískur flokkur heldur fyrst og fremst nýfrjálshyggjuflokkur,“ staðhæfir formaðurinn og vísar í „hugmyndaheim hægrikrata sem birtust hvað skýrast í hægri beygju Verkamannaflokksins breska undir Tony Blair“.

Leifar af sósíalískri baráttu

Gunnar Smári vísar því á bug að sósíalismi hafi verið hugmyndafræði Sovétríkjanna. „Því miður hafa hægrikratar á Íslandi ætíð stutt slíkan samjöfnuð og lagt sig fram um að sverta og grafa undan baráttufólki fyrir bættum kjörum alþýðunnar, viljað gera það samsekt með glæpum þeirra klíka sem náðu völdum og brutu niður lýðræði og réttlæti í mörgum þeirra landa sem kenndu sig við sósíalisma eða alþýðu.“

„Það að Samfylkingarfólk skuli skrifa þetta með fólki úr Viðreisn og Pírötum, sem hvort tveggja eru afkvæmi nýfrjálshyggjutímans, sýnir vel hvar sú klíka stendur sem náð hefur undir sig leifunum af þeim stjórnmálaflokkum sem byggðir voru upp af sósíalískri baráttu síðustu aldar,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert