VesturVerk sakar Landvernd um dylgjur

VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja …
VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja stíflur við fimm fjallavötn. mbl.is/Golli

VesturVerk segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um að landamerki í Ófeigsfirði séu með þeim hætti sem landeigendur Drangavíkur lýstu í kæru sinni til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem lögð var fram í gær. 

Eigendur um 70% af landsvæði Drangavíkur kærðu framkvæmdarleyfi sem Árneshreppur veitti VesturVerki þann 12. júní fyr­ir fyrsta hluta virkj­ana­fram­kvæmda Vest­ur­verks við Hvalár­virkj­un.

Landeigendur segja Vest­ur­verk og Árnes­hrepp­ hafa notað röng landa­merki við skipu­lagn­ingu Hvalár­virkj­un­ar, en þing­lýst landa­merkja­bréf frá 1890 staðfest­ir að vatna­svið Ey­vind­ar­fjarðar­vatns sé inn­an Dranga­vík­ur. Þá hafa landeigendur ekki veitt heimild fyrir virkjanaframkvæmdum á jörðinni. 

„Í þau 13 ár sem VesturVerk hefur haft Hvalárvirkjun í undirbúningi hafa engar vísbendingar borist um að landamerki í Ófeigsfirði séu með þeim hætti sem hluti af landeigendum Drangavíkur lýsa í kæru sinni. Sá liður kærunnar kemur því forsvarsmönnum VesturVerks  í opna skjöldu og er ekki í samræmi við þau landamerkjabréf sem unnið hefur verið eftir,“ segir í tilkynningu VesturVerks í dag. 

„Það sætir furðu að í undirbúnings- og skipulagsferli vegna Hvalárvirkjunar, sem spannar á annan áratug, skuli landeigendur ekki hafa vakið fyrr máls á meintu misræmi í landamerkjaskráningu. Einnig mætti ætla að opinberar eftirlitsstofnanir hefðu bent á slíkt misræmi, sé það fyrir hendi.“

VesturVerk segir þar til bær yfirvöld þurfa að skera úr um innihald kærunnar og að fyrirtækið muni á næstu dögum fara yfir fjölmarga liði hennar. 

Þá segist VesturVerk hafa fylgt að öllu leyti þeim lögum og reglum sem gilda um skipulags- og undirbúningsferli mannvirkja á borð við vatnsaflsvirkjanir og að verkefnið hafi á öllum stigum málsins verið staðfest af opinberum aðilum, núna síðast með framkvæmdarleyfi frá Árneshreppi. 

Segir Landvernd hafa haft uppi dylgjur

VesturVerk gagnrýnir einnig Landvernd harðlega fyrir tilkynningu sína í kjölfar kærunnar í gær, en Landvernd sagði kæruna vera til marks um ófag­leg vinnu­brögð sem HS Orka, Vest­ur­verk og hrepps­nefnd Árnes­hrepp­ar hafa viðhaft í tengsl­um við Hvalár­virkj­un.

„Það er umhugsunarvert hvernig umhverfissamtökin Landvernd brugðust umsvifalaust við fréttum gærdagsins af kærumálinu. Í fréttatilkynningu frá samtökunum sem birtist í beinu framhaldi af fréttum um kæruna eru gífuryrðin og ávirðingarnar slíkar að ekki verður hjá því komist að bregðast við,“ segir í tilkynningu VesturVerks. 

„Landvernd eru fjölmenn samtök sem að stórum hluta eru rekin af opinberu fé. Um 27 milljónir króna af skattfé ríkisins runnu til samtakanna árið 2017 og því verður að gera þá kröfu að hófstillingar sé gætt og sannleiksgildi virt í málflutningi samtakanna.“

VesturVerk segir Landvernd hafa haft uppi dylgjur um arðsemi verkefnsins sem Landvernd hafi ekki forsendur til að leggja mat á og sagt VesturVerk hafa gerst brotlegt við lög og reglur í landinu. 

„Það eru alvarlegar ásakanir. Landvernd hlýtur að þurfa að færa rök fyrir máli sínu og tiltaka hvaða lög, reglur eða faglegir ferlar hafa verið virtir að vettugi í undirbúningi að virkjun Hvalár. Vissulega eru skiptar skoðanir um það með hvaða hætti við Íslendingar högum sambúðinni við náttúru landsins okkar. Sumir vilja nýta, aðrir vilja njóta en þorri landsmanna vill gera hvort tveggja með sjálfbærni að leiðarljósi. Það sýna skoðanakannanir á landsvísu. En í allri þeirri mikilvægu umræðu sem fram fer um þessi mál verður það að vera lágmarkskrafa að satt og rétt sé sagt frá.“

mbl.is