Heilsa barnanna skiptir mestu máli

Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar.
Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég þekki þennan rekstur ekki af öðru en mikilli fagmennsku og snyrtilegheitum,“ segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, um reksturinn á ferðaþjónustubænum Efstadal 2, í samtali við mbl.is.

Komið er í ljós að níu af börnunum tíu sem greinst hafa með sýkingu af völdum E. coli-bakteríunnar smituðust á Efstadal 2. Tíunda barnið er talið hafa smitast af systkini sínu. Þetta kom fram í tilkynningu frá Embætti landlæknis fyrr í dag.

Ásta segir að það sé mikill léttir fyrir sveitarfélagið Bláskógabyggð að uppruni smitsins sé fundinn og búið sé að eyða óvissunni. Ekki er vitað ná­kvæm­lega með hvaða hætti börn­in sem eru á aldr­in­um fimm mánaða til 12 ára smituðust af E.coli-bakt­erí­unni en vitað er að í kálfastíu með þrem­ur kálf­um fannst E.coli-bakt­erí­an í saur­sýni frá þeim. 

„Það er mikill léttir að það skuli vera búið að finna hvaðan þetta kom til að hægt sé að koma í veg fyrir frekari sýkingar og stoppa allar smitleiðir.“

Mögulega áfall fyrir reksturinn

Hún hefur ekki miklar áhyggjur af því að þetta leiðindamál komi til með að hafa áhrif á ferðaþjónustu í sveitarfélaginu en hugsanlega komi þetta til með að hafa áhrif á reksturinn á Efstadal 2. Það verði að koma í ljós en aðalatriðið á þessari stundu sé heilsa barnanna sem sýktust.

„Það er bara að vona að þessi börn sem sýktust séu á batavegi og nái sér. Það er það sem skiptir mestu máli,“ segir hún og bætir við að hún muni koma til með að ræða við rekstraraðilana en hún er viss um að þau „muni gera allt til að hafa hlutina 100% í lagi.“

Björg­vin Jó­hann­es­son, einn af eig­end­um ferðaþjón­ustu­bæj­ar­ins Efsta­dals 2 í Blá­skóga­byggð, var skiljanlega leiður yfir því að smitið hafi komið þaðan en lagði, líkt og Ásta, áherslu á að aðalatriðið væri að börnin sem smituðust nái fullri heilsu á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka