Athugasemd FME „brosleg“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist ánægður með þá ákvörðun héraðsdóms að samþykkja flýtimeðferð í dómsmáli VR gegn Fjármálaeftirlitinu. Segir hann vinnubrögð VR hafa verið vönduð og fagmannleg og væntir hann niðurstöðu í málinu snemma hausts. 

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur samþykkti í gær flýtimeðferð í dóms­máli VR gegn Fjár­mála­eft­ir­lit­inu, en VR gerir kröfu um að ákvörðun Fjár­mála­eft­ir­lits­ins, þess efn­is að viður­kenna ekki lög­mæti ákvörðunar full­trúaráðs VR um að aft­ur­kalla umboð stjórn­ar­manna í Líf­eyr­is­sjóði verzl­un­ar­manna, verði dæmd ógild. 

„Það er búið að stefna lífeyrissjóðnum og Fjármálaeftirlitinu núna formlega,“ segir Ragnar.  „Fjármálaeftirlitið var sýndist mér að gagnrýna það að þetta hefði verið rekið af okkar hálfu fyrir fjölmiðlum, sem er náttúrulega bara mjög brosleg athugasemd miðað við það að Fjármálaeftirlitið sjálft hefur rekið málið fyrir fjölmiðlum og fjölmiðlar hafa haft aðgengi að gögnum sem við höfum ekki haft. 

„Ólíkt því sem Fjármálaeftirlitið taldi fengum við flýtimeðferð og nú er búið að stefna formlega þannig að málið er bara komið í farveg,“ segir Ragnar, en samkvæmt Daníel Isebarn Ágústsyni, lögmanni VR, verður málið þingfest 8. ágúst. 

„Ég geri ráð fyrir að það verði stuttir frestir og vonandi verður það flutt helst í ágúst. Það er ekki algengt að mál fái flýtimeðferð, það þurfa að vera sérstök rök fyrir því,“ segir Daníel. 

Segir flýtimeðferð styrkja málstað VR

Ragnar segir VR hafa ígrundað hvert skref í ferli málsins vel og að vinnubrögð hafi á hverju stigi verið vönduð. 

„Við höfum að mínu mati unnið málið mjög faglega og vel og við erum ekkert að fara í þetta að óhugsuðu máli. Við hefðum líka getað haldið stjórnarfund og tekið sömu ákvörðun aftur, en við teljum einfaldlega ekki boðlegt að líta framhjá þessum vinnubrögðum Fjármálaeftirlitsins.

Við hljótum alltaf að gera þá kröfu að eftirlitsaðilar starfi eftir þeim gildum og þeim boðum sem þeir sjálfir setja, að það sé stunduð góð stjórnsýsla og fagleg vinnubrögð, sem var svo sannarlega ekki gert í þessu tilfelli af hálfu Fjármálaeftirlitsins.“

Ragnar segist vera afar ánægður með þá ákvörðun héraðsdóms að samþykkja flýtimeðferð í málinu. 

„Að sjálfsögðu. Það styrkir að mínu mati málstað okkar að dómstólar telji málið það alvarlegt að flýtimeðferð fáist samþykkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert