Annarleg sjónarmið að baki innflutningi

Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra segir að ekki hefði nokkrum manni …
Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra segir að ekki hefði nokkrum manni dottið það í hug að flytja inn lambakjöt nema þá í gáleysi og borið skaða af. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég álít að menn séu að sparka löppunum undan sauðfjárbændum og sauðfjárbyggðum ef þeir virða það ekki sem Íslendingar þrá og þykir best þegar gest ber að garði, að bera þeir fram íslenskt lamb,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, í samtali við mbl.is um innflutning á lambakjöti.

„Íslendingar vilja ekki að það sé farið yfir hálfan hnöttinn til að sækja afurð annarra þjóða þegar að til er nægt magn í lifandi lömbum og kjöti í frystihúsum,“ bætir hann við.

Greint var frá því í Morg­un­blaðinu í dag að tug­ir tonna af  inn­flutt­um lambahryggj­um væru á leiðinni til Íslands og þeir gætu verið komn­ir í búðir í næstu viku.

Hrygg­irn­ir voru pantaðir eft­ir að ráðgjafa­nefnd um inn- og út­flutn­ing land­búnaðar­vara lagði til við ráðherra að gef­inn yrði út tíma­bund­inn inn­flutn­ingskvóti á lækkuðum toll­um til að bregðast við skorti á inn­lend­um lambahryggj­um.

Áður en ráðherra veitti leyfi til að opna toll­kvóta á lambahryggj­um bár­ust nýj­ar upp­lýs­ing­ar frá fram­leiðend­um sem þýddi að skil­yrði fyr­ir leyf­is­veit­ingu var ekki leng­ur full­nægt. Ráðherra óskaði því eft­ir að ráðgjafa­nefnd­in end­ur­mæti hvort þörf sé á að flytja inn lambahryggi og á nefnd­in að skila niður­stöðu í þess­ari viku.

Ráðherra hljóti að virða íslenskan munað

„Hér er búið að kjafta upp skortsölu en það er enginn skortur. Það er til lambakjöt ef menn deila því sín á milli. Hér höfum við átt og fullnægt þessum mikilvæga markaði og nú stendur yfir eitt mesta sólarsumar þannig það er mikil aukning í sölu á lambakjöti,“ segir Guðni og telur að ástandið sé hneyksli.

„Ég tel að það sýni að nefndin hafi ekki unnið sitt verk að ráðherra hefur skipað henni á nýjan leik að afla upplýsinga. Ég býst við því að landbúnaðarráðherra hljóti að virða þá stöðu að þetta er sérstakur, mikilvægur, dáður og elskaður munaður sem íslenska lambið er,“ bætir hann við.

Hann segir þó að við þessar aðstæður hefðu bændur átt að byrja slátra fyrir tíu dögum síðan og að þeir hafi „flotið sofandi að feigðarósi og ekki varað sig á því hvað menn eru grimmir og hvað menn eru staðráðnir í því að tala um skort.“

Vanvirðing við deyjandi heim

Guðni segir það nýmæli að mönnum detti í hug að flytja inn lambakjöt og aldrei hefði „nokkrum manni dottið það fyrr í hug nema þá í gáleysi og borið skaða af.“

Þá sé það virðingarleysi við deyjandi heim að flytja lambakjöt inn yfir hálfan hnöttinn til lands sem á nóg af því, bæði í högum og í frystihúsum.

„Það er ljóst að hér fara fyrir liði miklir talsmenn innflutningsins á öllum sviðum. Ég held að hér ráði annarleg sjónarmið för og þetta íslenska gáleysi að virða ekkert það sem okkur er heilagt,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert