Krefjast þess fyr­ir dómi að fá lykl­ana

Fyrirtaka verður í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag.
Fyrirtaka verður í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. mbl.is/Árni Sæberg

Kaupendur tveggja íbúða Félags eldri borgara við Árskóga í Reykjavík lögðu í dag fram aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur. Er þess þar krafist að þeir fái íbúðirnar afhentar sem fyrst enda hafi þeir uppfyllt kaupsamning og greitt af íbúðinni í samræmi við hann. Þetta staðfesta lögmenn kaupendanna í samtali við mbl.is.

Félag eldri borgara, sem byggir íbúðirnar, hefur krafið kaupendur um greiðslu umfram það sem samið var um, á þeim forsendum að verkið hafi farið fram úr kostnaðaráætlun. Heimildir mbl.is herma að kostnaðarhækkunin nemi rúmum 10% af umsömdu verði.

Sigurður Kári Kristjánsson, annar lögmannanna, segir málið skýrt frá sínum sjónarhóli. Gerður hafi verið kaupsamningur og hann efndur af hálfu umbjóðanda síns. Félag eldri borgara hafi enga heimild til að krefjast greiðslna umfram þær sem samið var um. „Það er ein af grundvallarreglum samningaréttar að orð skulu standa.“ Hann segir forsvarsmenn félagsins sjálfa hafa viðurkennt að réttarstaða þeirra sé engin. Þeir hafi ekki heimild til að hækka umsamið verð einhliða.

Fyrirtaka verður í héraðsdómi á þriðjudagsmorgun og verði beiðnin samþykkt verður Félagi eldri borgara gert að afhenda kaupendunum íbúðirnar. Sigurður Kári á ekki von á öðru en að beiðnin verði samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert