Leit með sónar skilaði ekki árangri

Leitin í dag skilaði ekki árangri. Á morgun verður lítill …
Leitin í dag skilaði ekki árangri. Á morgun verður lítill kafbátur notaður við leitina. Mynd/mbl.is

Leitin að belgíska ferðamanninum sem talin er hafa fallið ofan í Þingvallavatn hélt áfram í dag með köfurum, þyrlu og sónartækjum sem skönnuðu botninn þar sem það var hægt. Þetta segir Gunnar Ingi Friðriksson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita, í samtali við mbl.is. Á morgun verður lítill kafbátur notaður við leitina.

Leitin hófst klukkan átta í morgun og stóð yfir allt til klukkan fjögur í dag. Þingvallavatn er um 85 ferkílómetrar og leitin því gríðarleg áskorun fyrir þá aðila sem koma að henni. Leitarsvæðið hefur þó verið þrengt og er það um tólf ferkílómetrar að sögn Gunnars.

„Afmarkað svæði er um tólf ferkílómetrar. Frá Mjóanesi niður í Úlfljótsvatnshrygg þar sem Steingrímsstöð er í suðausturhluta Þingvallavatns,“ útskýrir Gunnar. Ekki er vitað hversu lengi leitin mun standa yfir á morgun en reynt verður að nota kafbátinn eins og hægt er.

mbl.is