Katrín reiðubúin að funda með Pence

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst reiðubúin að funda með Mike Pence …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst reiðubúin að funda með Mike Pence ef varaforsetinn getur framlengt dvö sína hér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra Ís­lands, hefur lýst sig reiðubúna til að funda með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna að lokinni Svíþjóðarferð sinni, geti varaforsetinn framlengt Íslandsdvöl sína.

Lára Björg Björns­dóttir, upplýsingafulltrúi ríkis­stjórnarinnar staðfesti þetta í samtali við mbl.is. 

Jef­frey Ross Gunt­her, ný­skipaður sendi­herra Banda­ríkjanna á Ís­landi, kom til fundar við forsætisráðherra í stjórnarráðinu í dag. Á fundinum var meðal annars ræddur sá möguleiki að Pence myndi framlengja Íslandsheimsókn sína þannig að forsætisráðherrann og varaforsetinn ættu möguleika á að hittast.

Líst Katrín sig reiðubúna að funda með Pence ef þetta gangi eftir.

Ferðaáætlun varaforsetans gerir ráð fyrir að hann komi hingað til lands 4. september og fundi þá með Guð­laugi Þór Þórðar­syni utan­ríkis­ráð­herra og halda síðan til Bret­lands daginn eftir þar sem hann mun funda með þarlendum ráðamönnum.

Katrín mun, líkt og áður hefur komið fram ávarpa þing Nor­ræna verka­lýðssam­bands­ins (NFS) sem fer fram í Mal­mö 3. – 5. sept­em­ber und­ir yf­ir­skrift­inni „Byggj­um brýr“. Hefur sú ákvörðun hennar vakið athygli utan landsteinanna og sætt nokkurri gagnrýni alþingismanna, sem hafa sagt forsætisráðherra eiga að nýta tækifærið og ræða við Pence um brýn málefni.

Sagði Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið í dag það „óvenjulegt“ að forsætisráðherra landsins skuli ekki taka á móti varaforsetanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina