Flugi Icelandair til Orlando aflýst vegna Dorian

Dorian nálgast nú Flórídaskaga. Á laugardag gaf alþjóðaflugvöllurinn í Orlando …
Dorian nálgast nú Flórídaskaga. Á laugardag gaf alþjóðaflugvöllurinn í Orlando það út að hann yrði lokaður í dag og þá aflýsti Icelandair strax flugi sínu þangað. AFP

Flugi Icelandair til Orlando í Bandaríkjunum sem átti að fara frá Keflavíkurflugvelli síðdegis hefur verið aflýst. Það var gert á grundvelli upplýsinga um að flugvöllurinn í Orlando yrði lokaður í dag vegna fellibylsins Dorian sem herjaði á íbúa Bahamaeyja í gær og í nótt og færist nær ströndum Bandaríkjanna.

Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair segir flugfélagið hafa fengið upplýsingar á laugardag um að alþjóðaflugvöllurinn í Orlando yrði lokaður í dag og þá hafi strax verið tekin ákvörðun um að aflýsa fluginu og gera farþegum kleift að breyta ferðatilhögunum sínum.

„Svo reyndar í gærkvöldi fengum við þær upplýsingar að flugvöllurinn yrði opinn,“ segir Ásdís, sem segir ekki útlit fyrir að fellibylurinn muni hafa frekari áhrif á ferðir félagsins til og frá Orlando.

Í tilkynningu alþjóðaflugvallarins kemur fram að þar verði opið í dag, en starfsfólk flugvallarins muni halda áfram að fylgjast grannt með stefnu stormsins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert