Segir greinargerðina „fáránlega pælingu“

Helgi Hrafn Gunnarsson telur brýnt að rannsaka hvað er að …
Helgi Hrafn Gunnarsson telur brýnt að rannsaka hvað er að fara úrskeiðis í meðferð mála hælisleitenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði í Silfrinu á RÚV í dag að krafa ríkislögmanns gagnvart bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar vegna ólögmætrar frelsissviptingar vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins væri „augljóslega fráleit“.

„Án þess að við förum að leita að hverjum það sé að kenna þurfa allir sem koma að málinu – þar á meðal ríkislögmaður, ríkisstjórnin og dómstólar – að átta sig á því að þetta mál […] snýst um trúverðugleika kerfisins. Og trúverðugleika þess að lýðveldið Ísland geti tekist á við þessa hörmulegu fortíð af ábyrgð. Ég sé það ekki úr þessari kröfu frá ríkislögmanni,“ sagði Helgi Hrafn.

„[Ríkislögmaður] hlýtur að leggja hana fram með því markmiði að ná henni fram, varla er hann að leggja hana fram og svo semja sig að einhverri annarri niðurstöðu,“ útskýrði þingmaðurinn. „Það hlýtur að vera augljóst fyrir alla, löglærða sem ólöglærða, að það sé fráleit niðurstaða að það eigi ekki að veita neinar bætur fyrir það sem fór þarna úrskeiðis. Það er fáránleg pæling. Það er ekki hægt að taka það alvarlega þegar einhver stingur upp á svona vitleysu.“

Greinir á um upphæð

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri-grænna, kvaðst ekki trúa því að ríkisstjórnin væri að beita sér gegn sáttum í málinu, enda hefði hún gefið út skýra yfirlýsingu um vilja til þess að leita allra leiða til að ná sáttum. Sagði hann nú fagfólk vera með málið á sinni könnu og að hann bæri fullt traust til þess.

„Ég skil að menn greini á um þess upphæð, hún er gríðarlega há. Málið allt er án fordæma. [] En þessi greinargerð tekur málið alveg aftur til baka til síðasta hausts,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, um greinargerð setts ríkislögmanns. „Hann er að flytja málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hún ber ábyrgð á þessum texta ég trúi bara ekki öðru en þetta verði lagað,“ sagði hún.

Tók þingmaðurinn einnig upp mál Erlu Bolladóttur. „Ég get ekki séð skynsemina í því að menn viðurkenni að þessar aðstæður sem þessu unga fólki var boðið upp á fyrir þessum áratugum leiddu til falskra játninga, að menn viðurkenni ekki á sama tíma að það leiddi til þess sem Erla lenti í, að vera með falskar sakbendingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert