Ræða saman aftur í næstu viku

„Ég segi ekki að ég sé bjartsýnn, alls ekki, en við ætlum að kanna hvort það sé einhver flötur á því að koma þessu í gang aftur. En það er algerlega óljóst hvort það tekst.“

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.

Þetta segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna í kjaraviðræðum félagsins við Samtök atvinnulífsins. Fundað var í morgun í deilunni í húsakynnum ríkissáttasemjara en upp úr viðræðunum slitnaði á dögunum og hóf Blaðamannafélagið í kjölfarið að undirbúa mögulegar verkfallsaðgerðir.

Viðsemjendur ætla að funda eftir helgi og síðan hefur verið boðaður annar fundur hjá ríkissáttasemjara á föstudaginn eftir viku. „Við bara höldum okkar striki að kynna stöðuna fyrir félagsmönnum. Því lýkur á morgun. Það er örugglega ljós við enda ganganna en ég veit hins vegar ekki alveg hvernig við komumst að því,“ segir Hjálmar.

mbl.is