Eflir sóknina á Kínamarkað

Daxing-flugvöllur gæti reynst aflvaki ferðaþjónustunnar.
Daxing-flugvöllur gæti reynst aflvaki ferðaþjónustunnar. AFP

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir opnun Daxing-flugvallar í Peking fela í sér mikil tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu. Það hafi staðið kínverskri ferðaþjónustu fyrir þrifum að hafa aðeins einn alþjóðaflugvöll í Peking. Með nýja flugvellinum megi efla millilandaflugið.

Zhijian bendir á að tíðni flugferða milli Peking og Norðurlanda hafi verið aukin. Þar sem kínverskir ferðamenn heimsæki gjarnan nokkur lönd í sömu ferðinni muni þessi umferð skapa tækifæri á Íslandi.

Þá muni flug flugfélagsins Tianjin til Íslands, með viðkomu í Helsinki, verða lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna. Flogið yrði frá Wuhan og er rætt um þrjár ferðir á viku.

Pétur Yang Li, viðskiptafulltrúi í sendiráði Íslands í Peking, tekur í sama streng og segir gríðarstóran markað geta opnast íslenskri ferðaþjónustu með því að gera Ísland að tengistöð fyrir Kína á leið til austurstrandar Bandaríkjanna. Milljónir Kínverja fari þá leið á hverju ári.

Fjölmenn sendinefnd frá Kína situr nú Hringborð norðursins. Zhijian segir kínversk stjórnvöld áhugasöm um að efla samstarfið við Íslendinga á ýmsum sviðum. Meðal annars sé horft til formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Þá vilji kínversk stjórnvöld leggja lóð sitt á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsvánni og stuðla að friði og sjálfbærri nýtingu auðlinda í norðri.

Spáir mikilli fjölgun

Pétur segir fjölgun kínverskra ferðamanna byggða á grunni fríverslunarsamnings ríkjanna. Eigi Ísland að vera tengistöð fyrir fjölda kínverskra ferðamanna þurfi landið að vera í stakk búið til þess.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir óvíst hversu margir erlendir ferðamenn komi til landsins á næsta ári. Kínverskir ferðamenn vegi orðið þungt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert