Krafan verður áfram 1,3 milljarðar

Guðjón Skarphéðinsson.
Guðjón Skarphéðinsson. mbl.is/Golli

„Krafan verður áfram 1,3 milljarðar.“ Þetta segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, eins þeirra sem sýknaðir voru af ákæru í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu, en krafa Guðjóns á hendur ríkinu verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Ragnar er líka lögmaður Erlu Bolladóttur og stefna hennar á hendur ríkinu, til að reyna að fá ákvörðun endurupptökunefndar ógilta verður þingfest á næstu dögum.

Ragnar Aðalsteinsson
Ragnar Aðalsteinsson

Guðjón stefndi ríkinu til greiðslu bóta upp á 1,3 milljarð í júlí síðastliðnum. Í kjölfarið vann ríkislögmaður greinargerð þar sem öllum bótakröfum Guðjóns var hafnað og krafist sýknu. Þá var þar vísað til þess að dómkrafa Guðjóns væri fyrnd. 

Ragnar segir að krafa Guðjóns sé annars vegar byggð á miskabótum, hins vegar á atvinnumissi sem hann hafi orðið fyrir í tengslum við málið.  

Mörg hundruð daga einangrun

Guðjón var sviptur frelsi í 792 daga og hljóðar krafan upp á 972.192.250 krón­ur, auk dráttarvaxta og er krafan samanlagt 1,3 milljarðar.

 „Í nýjum dómum Landsréttar hafa fólki verið dæmdar 200 þúsund krónur fyrir hvern dag í skammtímavistun sem varði í átta daga. Það er óframreiknað, þannig að upphæðin á dag er hugsanlega í kringum 220.000 á dag,“ segir Ragnar.  „Samkvæmt viðurkenndum fræðikenningum verða menn fyrir andlegu og líkamlegu tjóni eftir um 15 daga í einangrun, svo eykst það eftir því sem fólk situr lengur inni. Þannig að það ættu ekki að vera eins mikil áhrif á átta sólarhringa innilokun og mörg hundruð daga einangrun.“

Erla Bolladóttir
Erla Bolladóttir Eggert Jóhannesson

Erla höfðar mál gegn ríkinu til að fá ógilda ákvörðun endurupptökunefndar um að hafna því að taka mál hennar upp, en hún var sakfelld fyrir rangar sakargiftir i í málinu, auk þeirra Kristjáns Viðars Viðarssonar og Sævars Ciesielski. Ragnar segir að málið verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á næstu dögum.

Enn engin svör við kröfu síðan í janúar

Í byrjun þessa árs lagði Erla fram kröfu á hendur íslenska ríkinu um skaðabætur vegna einangrunar sem hún var látin sæta árið 1976. Ragnar segir að enn hafi engin svör borist við kröfunni. „Hún var höfð í gæsluvarðhaldi í 230 daga eða þar um bil, í einangrun. Og það er ekki nokkur leið fyrir mig sem lögmann hennar að finna út úr því fyrir hvað hún var í þeirri einangrun. Henni var ekki borið neitt á brýn og þetta var ekki út af röngum sakargiftum.“

mbl.is