„Ég hef aldrei lent í neinu svona áður“

Um þriggja kílómetra röð myndaðist á Reykjanesbrautinni.
Um þriggja kílómetra röð myndaðist á Reykjanesbrautinni. Ljósmynd/Lögreglan

Maður sem sat fastur í bílnum sínum í þrjár klukkustundir á Reykjanesbraut í kvöld segir upplýsingagjöf um aflýst flug verulega ábótavant. Hann er nú fastur í Reykjanesbæ og býst við að þurfa að gista þar í nótt. 

„Ég var að keyra vinkonu mína sem átti flug til Óslóar klukkan 19:10. Við vorum föst á hringtorginu um tveimur kílómetrum frá Leifsstöð í þrjá tíma. Frá 18:10 til 21:10, við hreyfðumst kannski um 500 metra áfram. Við vorum bara föst í bílalest. Það var Yaris fyrir framan mig sem var að fjúka til þegar við keyrðum þessa 500 metra áfram, það var alveg ótrúlegt að sjá það. Ég hef aldrei lent í svona, bara aldrei,“ segir Eyjólfur Ármannsson í samtali við mbl.is. 

Eyjólfur segir að á endanum hafi honum verið ráðlagt af björgunarsveitarmanni að snúa bílnum við og keyra inn í Reykjanesbæ. Hann segir að þar sé allt fullt af bæði Íslendingum og ferðamönnum sem viti ekki hvert sé best að snúa sér. 

Um þriggja kílómetra löng bílaröð myndaðist að Keflavíkurflugvelli fyrr í kvöld, en færð á svæðinu hefur versnað til muna og veður er afar slæmt. 

Lögreglan á Suðurnesjum reynir nú að aðstoða þá sem sitja fastir í bílum með hjálp björgunarsveita, en fyrr í kvöld biðlaði lögreglan til þeirra sem reyndu að ganga að flugstöðinni að halda kyrru fyrir í bílunum. 

Héldu að áfram yrði flogið

Eyjólfur segir að upplýsingagjöf um áætlunarflug frá Leifsstöð hafi eflaust valdið því að einhverjir hafi talið sig vera að missa af fluginu sínu og brugðið á það ráð að reyna að ganga að flugstöðinni. 

„Upplýsingarnar sem þeir eru að gefa um flugið eru bara stórhættulegar. Það er verið að gefa upplýsingar um nýja tíma og þá stressast maður að sjálfsögðu allur upp, maður heldur að það verði flogið,“ segir Eyjólfur. 

Þeir sem telja sig vera að missa af flugi eru …
Þeir sem telja sig vera að missa af flugi eru vinsamlegast beðnir um að reyna ekki að ganga að flugstöðinni. Ljósmynd/Lögreglan

„Flugið sem við vorum að reyna að ná átti að fara 19:10, síðan var því allt í einu breytt í 19:30, síðan var það klukkan 20 allt í einu. Við vorum svo heppin að það kom lögreglumaður hingað sem sagði okkur að fara bara ekki úr bílnum. Við fengum engar upplýsingar, ekki SMS eða neitt um breytingu á flugi. Við fórum inn á vef Isavia og þar var breyting í 19:30, á meðan það var mjög lengi 19:10 enn þá á vef Flugleiða. Upplýsingagjöfin er eitthvað sem Flugleiðir þurfa alveg klárlega að skoða,“ segir Eyjólfur. 

Leita sér að gistingu í Reykjanesbæ

Eyjólfur segist ekki skilja þá ákvörðun að gefa upp nýja brottfarartíma fyrir áætlunarflug þegar allt bendir til þess að því verði aflýst, en hann segir veðrið í Reykjanesbæ vera arfaslæmt. 

„Ekki vera að gefa upplýsingar um nýjan tíma, við stressuðumst öll upp þegar við sáum að það var búið að gefa upp 19:30, þá hugsuðum við bara „bíddu það verður flogið“, við sjáum bara nýjan tíma og höldum þá væntanlega að það verði flogið áfram. Þess vegna er fólk væntanlega að fara úr bílunum. Það er alveg stórhættulegt,“ segir Eyjólfur.

„Við vorum alveg þrælstressuð yfir því að fylgjast með tímanum á fluginu breytast þegar við bjuggumst við að því yrði aflýst miðað við veðrið sem er hérna. Þetta var mjög furðulegt. Þegar þú situr inni í bíl og klukkan er kortér í sjö og þú veist að það er flug klukkan 19:10 og svo er vélinni breytt í 19:30 þá hugsar þú bara hvað þú eigir eiginlega að gera, hugsar að þeir ætli greinilega að fljúga en þú situr bara fastur í bílnum.“

Eyjólfur segir að nú verði hann og vinkona hans að reyna að finna sér gistingu í Reykjanesbæ þar sem ekki sé hægt að komast til Reykjavíkur, að minnsta kosti ekki sem stendur. 

„Við þurfum að sofa hérna einhvers staðar, ég veit ekki hvernig þetta verður. Sjoppan hérna er full af fólki sem veit ekkert hvað það á að gera. Ég veit bara ekki alveg hvað við gerum núna. Þetta var alveg stórfurðulegt, ég hef aldrei lent í neinu svona áður.“

mbl.is