Aðgerðastjórnandi sóttur til Bolungarvíkur

Viðbragðsaðilar fara um borð í Þór í Ísafjarðarhöfn nú í …
Viðbragðsaðilar fara um borð í Þór í Ísafjarðarhöfn nú í morgun. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Björgunarliðar á Flateyri og aðgerðastjórn sem stjórnar aðgerðum frá Ísafirði taka stöðufund á næstunni vegna snjóflóðanna sem féllu seint í gærkvöldi.

Slæmt veður er á Flateyri og „enginn sér neitt“ að sögn Magnúsar Einars Magnússonar, formanns björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri.

Aðgerðastjórnandi sem kemur með varðskipinu Þór tekur þátt í fundinum en hann var sóttur til Bolungarvíkur. Hann mun taka yfir aðgerðina, segir Magnús Einar.

„Við erum að bíða fyrirmæla um hvað þeir vilja að við gerum. Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um verðmætabjörgun í þessu húsi sem flóðið lendir á. Við gerum ekkert í þessum bátum sem eru í höfninni. Það þarf einhver stór vinnutæki til að gera eitthvað þar,“ segir hann.

Alls komu með Þór fyrr í morgun fimmtán björgunarsveitarmenn, tveir lögreglumenn og einn sjúkraflutningamaður. Þegar skipið kemur aftur upp úr klukkan ellefu verður áfallateymi með í för, ásamt hjúkrunarfræðingi og aðgerðastjórnandanum.

mbl.is