Með allra stærstu flóðum á varnargarða

Börnin á Suðureyri við Súgandafjörð léku sér í snjónum eins …
Börnin á Suðureyri við Súgandafjörð léku sér í snjónum eins og vanalega í gær og virtust glöð og áhyggjulaus þrátt fyrir hamaganginn í veðrinu að undanförnu. Þannig á það líka að vera. RAX

Snjóflóðin sem féllu á þriðjudagskvöldið á Flateyri eru með allra stærstu snjóflóðum sem fallið hafa á varnargarða í heiminum.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að flóðin flæddu yfir varnargarðinn ofan Flateyrar á löngum köflum. Mikinn flóðsnjó er að finna milli garðanna ofan þvergarðsins sem myndar tengingu á milli þeirra skammt ofan byggðarinnar.

Flóðin virðast hafa kastast yfir garðana á talsverðri ferð vegna þess að ofarlega á innri hlið varnargarðanna er óhreyfður snjór sem flóðin hafa ekki sópað með sér en neðar hafa þau streymt með jörðu og brotið gróður og eyðilagt skilti og önnur mannvirki sem þar var að finna.

Mælingar á fyrra flóðinu sem féll úr Skollahvilft benda til þess að það hafi verið á 45-60 m/s hraða sem samsvarar 150-200 km hraða á klst. áður en það kom að garðinum. Mælingar á rúmmáli flóðanna liggja ekki fyrir en út frá tiltækum upplýsingum er áætlað að Skollahvilftarflóðið kunni að vera sambærilegt að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóðið úr Innra-Bæjargili var mun minna að rúmmáli enda upptakasvæði þess minna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert