Áfram þensla og landris komið í þrjá sentimetra

Sérfræðingar Veðurstofunnar stefna að því að setja upp tvo nýja …
Sérfræðingar Veðurstofunnar stefna að því að setja upp tvo nýja mæla á vöktunarsvæðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þróunin heldur áfram með alveg sama hætti,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands, spurður um þróun mála í grennd við Þorbjarnarfell norðvestan Grindavíkur.

Þar sem landrisið mælist mest er það nú komið í þrjá sentimetra, segir Benedikt, en landrisið undanfarna daga hefur verið á bilinu 3-4 millimetrar á dag.

Veðurstofan fylgist grannt með stöðu mála og í dag er stefnan að koma upp tveimur nýjum mælum á vöktunarsvæðinu við Grindavík.

„Við erum bara að reyna að komast úr húsi til að setja upp alla vega tvo mæla, einn uppi á Þorbirni ef við getum og síðan einhvers staðar vestan við  hann. Það er stefnan að gera það í dag og kannski teygist það eitthvað yfir á morgundaginn líka,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert