Rangfærslur á flugi um veiruviðbúnað í HR

Háskólinn í Reykjavík. Fólk sem er þar statt eða hefur …
Háskólinn í Reykjavík. Fólk sem er þar statt eða hefur verið í dag hefur ekkert að óttast. Konan sem beðin var að fara úr skólanum og í heimasóttkví er einkennalaus. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rangfærslur fóru á flug á samfélagsmiðlum síðdegis um það að Háskólanum í Reykjavík hefði verið lokað, að þar ríkti „panik-ástand“ og heilbrigðisstarfsmenn hefðu verið þar með viðbúnað vegna kórónuveirusmits.

Þessu vísa bæði Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Eiríkur Sigurðsson forstöðumaður samskiptasviðs skólans á bug í samtali við mbl.is. Engin ástæða er fyrir þá sem eru staddir í Háskólanum í Reykjavík eða hafa verið þar í dag til þess að hafa áhyggjur, segir Rögnvaldur.

Engin ástæða er fyrir HR-inga að hafa áhyggjur þó að …
Engin ástæða er fyrir HR-inga að hafa áhyggjur þó að æsingur hafi gripið um sig á samfélagsmiðlum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það virðist hafa undið upp á sig einhver misskilningur og einhverjar sögur farið af stað og það hafi valdið einhverjum óróleika á svæðinu,“ segir Rögnvaldur.

mbl.is talaði við nemendur um kl. 17 í dag sem voru innandyra í skólanum og töldu eitthvað alvarlegt hafa átt sér stað, vegna orðróms á samfélagsmiðlum.

Ein kona beðin um að fara í heimasóttkví

Hið rétta er að kona, nemandi við skólann, sem hafði verið í snertingu við manninn sem greindist með kórónuveiruna í dag, fékk skilaboð þar sem hún var beðin um að yfirgefa skólann og fara í heimasóttkví.

Þessum atvikum er lýst í frétt á vef Fréttablaðsins, sem fjallaði fyrst um málið. Þar kemur fram að blaðið hafi heyrt um fleiri tilfelli þess að fólk hafi verið beðið um að yfirgefa vinnustaði sína eða skóla vegna mögulegrar snertingar við þann sem er smitaður af veirunni.

Þetta atvik raskaði ekki starfi skólans og ekki er gert ráð fyrir að svo verði, segir Eiríkur. Konan var einkennalaus og ekkert bendir til þess að hún sé sýkt af kórónuveirunni.

Háskólinn í Reykjavík hefur síðdegis í dag sent út þau skilaboð til nemenda sinna að brýnt sé að þeir fylgi leiðbeiningum sem embætti landlæknis hefur gefið út vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert